Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG

Vinstri grænir
Vinstri grænir

Ung vinstri græn lýsa yfir óánægju með framgöngu þingmanna
Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þegar frumvörp um heildarlög
grunnskóla annars vegar og leikskóla hins vegar voru afgreidd í annarri
umræðu á Alþingi á mánudag, að því er segir í tilkynningu.

Þar greiddu fimm þingmenn flokksins atkvæði með því að ákvæði um að starfshættir grunnskóla skuli mótaðir af „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ yrði bætt við markmið grunnskólalaganna og sex þingmenn með því að samskonar ákvæði færi inn í leikskólalögin. Hinir þrír þingmenn flokksins sem voru viðstaddir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna segir að þarna hafi þingmennirnir gengið gegn landsfundarályktun flokksins um trúfrelsi frá árinu 2007.

„Í ályktuninni segir meðal annars: „Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, haldinn að Grand Hótel 23-25. febrúar, ályktar að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði. Öll löggjöf og stjórnsýsla þarf að miðast við það. Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar“,“ segir Auður Lilja.

„Að okkar mati þá þjónar ákvæðið um kristna arfleið íslenskrar menningar þeim eina tilgangi að réttlæta og auka afskipti eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar, af skólastarfi og að það sé aðför að hlutlausu starfi grunnskólanna,“ segir Auður Lilja.  Hún segir Ung vinstri græn vilja minna þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að flokkurinn kennir sig við jafnrétti. „Það er því skylda þeirra að vinna störf sín með hliðsjón af jafnréttisstefnu í öllum málaflokkum, þar með í trúmálum, og stuðla með verkum sínum að börn í grunnskólum fái faglega og hlutlausa kennslu í öllum greinum óháð trú.,“ segir Auður Lilja og bætir við: „Ung vinstri græn skora í þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að fylgja stefnu flokksins þegar lagafrumvarpið kemur til þriðju umræðu á Alþingi.“

Auður Lilja segir það reyndar óskiljanlegt að verið sé að troða þessu ákvæði um kristna arfleið íslenskrar menningar inn í frumvarp menntamálaráðherra.

„Í upphaflegu frumvarpi menntamálaráðherra hafði „kristilegt siðgæði“  verið fellt út úr markmiðskaflanum, meðal annars vegna tilmæla frá Mannréttindadómstól Evrópu. Þess vegna er mjög skrítið að verið sé að klína álíka klausu aftur inn í lögin,“ að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka