„Við höfum nóg með okkur sjálf“

Magnús Þór Hafsteinsson
Magnús Þór Hafsteinsson

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi formaður félagsmálaráðs Akraness, var alfarið á móti því að Akranes tæki á móti flóttafólki í sumar, þegar hugsanlega móttöku flóttamanna bar fyrst á góma í byrjun apríl.

Í nýjasta blaði Heimaskaga, málgagni Frjálslynda flokksins á Akranesi, er meðal annars greinargerð Magnúsar Þórs til meirihluta bæjarstjórnar Akraness 8. maí vegna hugsanlegrar komu flóttafólks frá Írak til Akraness. Þar segir hann meðal annars að málið hafi ekki verið rætt í nefndum bæjarins og kemst að þeirri niðurstöðu að „miðað við skamman aðdraganda, lítið svigrúm til undirbúnings, mikla óvissu í málinu og þær horfur sem nú eru í bæjarfélaginu þá tel ég alls ekki tímabært að Akranesbær fallist á að taka á móti flóttafólki að svo stöddu. Sem formaður félagsmálaráðs treysti ég mér ekki til að mæla með þessu.“

Kemur ekki til greina

Í tölvupósti til ráðamanna 6. apríl segir Magnús Þór að í gögnum til bæjarfulltrúa 4. apríl sé m.a. minnisblað um hugsanlega móttöku flóttamanna í haust en engin formleg beiðni hafi borist Akranesbæ um málið. Ekki sé ástæða til að taka málið inn í bæjarstjórn að svo stöddu því það færi „andstæðingum okkar vopn í hendur til að berja á okkur.“

Hann segist ekki ætla að beita sér fyrir því að félagsmálaráð bæjarins sendi eitthvað frá sér um málið þó hægt sé að leggja minnisblaðið fram til kynningar í ráðinu. „Annars er afstaða mín í málinu alveg skýr. Ég tel að þetta komi alls ekki til greina. Hér er verið að tala um 60 manns á tveim árum, inn í bæjarfélag þar sem félagsþjónustan er þegar spennt til hins ýtrasta.“ Hann segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á útlendingum á Akranesi undanfarin misseri og nú séu þeir um 500 manns. „Að ætla síðan að láta sér detta í hug að bæta við 60 manns sem koma úr flóttamannabúðum og hafa upplifað ýmislegt (talað hefur verið um fólk frá Palestínu), fólk sem þarf að vera í gjörgæslu félagsmálayfirvalda um ókomna framtíð – er svo galið að ég á vart orð yfir vitleysuna. Þetta þýddi þá að um tíu prósent bæjarbúa væru útlendingar og þar af væru tíu prósent útlendingan(n)a flóttafólk... Það má færa sterk rök fyrir því að þetta flóttafólk muni ekki hverfa héðan nema að takmörkuðu leyti þar sem við erum svo nálægt Reykjavíkursvæðinu. Ríkið greiðir í raun bara kostnað við móttöku og svo er þetta meira eða minna á okkar herðum.“

Nóg með okkur

Og Magnús Þór endar mál sitt á eftirfarandi hátt: „Það er frumskylda okkar sem sveitarfélags að sinna okkar íbú(u)m og þessi skylda er bundin í lög. Ég ætla ekki að horfa framan í það fólk með niðurskurðarhnífinn á lofti um leið og ég flyt inn í bæinn tæplega hundrað flóttamenn með hinni hendinni. Kemur bara ekki til mála. Ef bærinn vill hjálpa flóttafólki þá er miklu nær að styðja samtök eins og kirkjuna eða Rauða krossinn til hjálparstarfa í flóttamannabúðum í staðinn fyrir að flytja vandamálin hingað. Við höfum nóg með okkur sjálf hér heima.“
Magnús Þór Hafsteinsson
Magnús Þór Hafsteinsson Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert