Guðmundur Arason, fyrrverandi forstjóri og forseti Skáksambands Íslands, lést í gær 89 ára að aldri. Guðmundur fæddist 17. mars 1919 á Heylæk í Fljótshlíð, sonur Ara Magnússonar, sjómanns og útgerðarmanns í Reykjavík, og Jóhönnu Jónsdóttur, húsmóður. Eiginkona Guðmundar er Rannveig Þórðardóttir, fædd 12. maí 1923. Þau eignuðust tvö börn, Ara fæddan 1944 og Önnu Jóhönnu árið 1952.
Guðmundur hóf nám í Stálskipasmíði í Stálsmiðjunni árið 1939. Hann lauk sveinsprófi árið 1943 og hlaut meistararéttindi árið 1948. Frá 1950 til 1962 starfaði Guðmundur sem verkstjóri í Landssmiðjunni. Hann var þá stofnandi og aðaleigandi Borgarsmiðjunnar í Kópavogi árið 1962. Síðar, eða árið 1970, stofnaði hann járninnflutningsfyrirtæki Guðmundar Arasonar og var forstjóri þess fyrirtækis til 84 ára aldurs.
Guðmundur vann margvísleg félagsstörf, einkum í sambandi við íþróttir. Hann var t.a.m. aðalhnefaleikaþjálfari Ármanns á árunum 1938 til 1953 og Íslandsmeistari í þungavigt árið 1944. Einnig gegndi hann starfi formanns Hnefaleikaráðs Reykjavíkur. Hann barðist jafnframt lengi fyrir því að hnefaleikar yrðu leyfðir hér á landi á nýjan leik. Guðmundur var gerður að heiðursfélaga Glímufélagsins Ármanns árið 1988 og sæmdur gullmerki ÍSÍ árið 1984, auk þess sem hann var sæmdur gullmerki Vals.
Guðmundur var einnig mikill skákmaður og árin 1966 til 1969 sat hann sem forseti Skáksambands Íslands. Árið 1981 var hann gerður að heiðursfélaga Skáksambandsins.