Gissur Ó. Erlingsson, löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi, á 80 ára stúdentsafmæli í ár. Prófskírteinið hans frá Menntaskólanum í Reykjavík (MR) er dagsett 30. júní 1928. Með Gissuri útskrifuðust 35 piltar og þrjár stúlkur. Einn piltur bættist svo í stúdentahópinn um haustið. Gissur er einn eftirlifandi úr hópnum frá 1928 og elstur núlifandi stúdenta frá MR. Hann kveðst eiga ljúfar minningar frá námsárunum og eins frá fjölmörgum stúdentsafmælum í áranna rás. Á menntaskólaárunum bundust mörg persónuleg vinabönd sem entust ævilangt.
Gissur var 13 ára þegar hann hóf nám í 1. bekk MR fyrir 86 árum.
„Ég var afskaplega fátækur piltur og oft illa til fara því maður þurfti að ösla blauta Vatnsmýrina og oft blautar götur til að komast í skólann,“ sagði Gissur. Hann bjó í foreldrahúsum á Haukalandi, smábýli sem faðir hans byggði 1918. Haukaland stóð við Öskjuhlíðartaglið á svipuðum slóðum og Hótel Loftleiðir eru nú. Leiðin yfir þúfnakollana í eyðilegri Vatnsmýrinni og upp á Laufásveginn varð því menntavegur Gissurar á námsárum í menntaskólanum.
Í gagnfræðadeild MR voru tvær deildir og námsefni það sama í báðum. Gissur segir að á þessum árum hafi stjórnvöld litið skólasetur hornauga. Því hafi verið settur þröskuldur við gagnfræðapróf upp úr 3. bekk til að sporna við „ótímabærri fjölgun menntamanna“ eins og það var orðað. Nemendur þurftu 5,67 í einkunn til að komast í 4. bekk, eða hinn eiginlega menntaskóla. Hann skiptist í máladeild og stærðfræðideild. Gissur náði upp og settist í máladeild. Stærðfræðin þvældist fyrir honum í 5. bekk og lauk Gissur skólagöngunni með því að lesa 5. og 6. bekk saman utanskóla. Eftir stúdentsprófið skráði hann sig í Háskóla Íslands.
„Ég byrjaði í læknadeild en guggnaði – held ég hafi verið haldinn mikilli námsþreytu á þessum árum og las mjög lítið. Ég taldi að læknastéttin yrði engu bættari þótt ég bættist í hana,“ sagði Gissur. Hann kvæntist og fór að „hrúga niður börnum“ eins og hann orðar það. Orðinn ábyrgur fjölskyldufaðir stórrar fjölskyldu kveðst Gissur hafa axlað sín skinn og farið í Loftskeytaskólann sem hann lauk með glans 1941. Hann fór til sjós sem loftskeytamaður og sigldi á stríðsárunum. Það var einmitt í löngum Ameríkusiglingum sem hann þýddi fyrstu bókina, Lykla himnaríkis eftir Cronin. Síðar varð Gissur stöðvarstjóri hjá Ríkisútvarpinu og Pósti og síma víða um land.
Eftir að Gissur fór á eftirlaun 68 ára hóf hann að þýða bækur af krafti. Hann þýðir aðallega úr ensku og norrænum málum en einnig svolítið úr þýsku og frönsku. Bókaþýðingar hans eru nú komnar hátt á annað hundraðið. Gissur vinnur nú að endurskoðun gamallar þýðingar Náttúrulæknis heimilanna og þýðir nýjar viðbætur við verkið, 99 ára gamall.