Félags- og tryggingamálanefnd hefur lagt til veigamiklar breytingar á frístundabyggðafrumvarpi félagsmálaráðherra en hún skilaði áliti sínu á því í gær. Frumvarpið hefur verið talsvert umdeilt en markmiðið með því er að tryggja þeim sem leigja lóðir fyrir sumarbústaði, eða frístundahús, rétt til að framlengja leigusamning að leigutíma liðnum. Landeigendur voru mjög ósáttir við frumvarpið en með breytingartillögum sínum vill félags- og tryggingamálanefnd reyna að koma til móts við þessi ólíku sjónarmið og jafna helsta ágreining. Tillögur nefndarinnar miða að því að leigutaki og leigusali geri sitt ýtrasta til að leita samninga við lok leigusamnings. Náist það ekki eigi báðir aðilar kost á úrræðum.
Þá er lagt til að leigusamningar sem ná til skemmri tíma en 20 ára falli ekki undir lögin og áréttað að vel sé hægt að gera lóðarleigusamning til styttri tíma. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí.