Ekki hefur enn verið gengið frá sölu á íbúðarhúsi Þjóðkirkjunnar á kirkjusetrinu Prestbakka í Hrútafirði samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Þór Guðmundssyni, framkvæmdastjóra kirkjuráðs sem fer með framkvæmdavald þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing í fyrra samþykkti að selja íbúðarhús sem stendur á landi Prestbakka.
Jóhönnu Helgadóttur, ekkju Yngva Þóris Árnasonar sem var prestur í 38 ár á Prestbakka, hefur þegar verið tilkynnt um það í bréfi að húseignin hafi verið seld og leigusamningurinn við Jóhönnu renni út í lok júní. Jóhanna og fjölskylda hennar hafa sóst eftir því að fá að leigja húsið áfram eða að bjóða í það þegar það verður selt. Í bréfinu stendur orðrétt að íbúðarhúsið hafi „þegar verið selt Prestbakkasókn“.
Formaður Prestbakkasóknar, Einar H. Esrason, segir sóknina sjá fyrir sér að húsið verði nýtt sem safnaðarheimili að hluta. Það er á þremur hæðum og segir Einar möguleika vera á því að leigja hluta þess út.
Einar hefur óskað eftir því með bréfi til Prestssetrasjóðs, sem 24 stundir hafa undir höndum, að fá að búa í húsinu og „stunda þar búskap, ásamt því að stunda óbreyttar nytjar,“ eins og orðrétt segir í bréfinu frá 14. janúar 2004. Aðspurður sagði Einar það óákveðið hver komi til með að búa í húsinu.
„Það vekur furðu í þessu máli að einstaklingur kemur fram f.h. sóknarnefndar i því skyni að sóknin fái húsið keypt sem safnaðarheimili. Áður hefur eiginkona þessa einstaklings persónulega farið fram á að fá jörðina og húsið leigða til búsetu,“ segir Ketill Sigurjónsson lögmaður.
Hann hefur mótmælt því verklagi sem þjóðkirkjan hefur viðhaft vegna fyrirhugaðrar sölu á íbúðarhúsinu á Prestbakka fyrir hönd Jóhönnu. Hann telur ákvarðanir kirkjuráðs, og þar með kirkjuþings, falla undir stjórnsýslulög og því ætti söluferlið allt að vera gagnsærra.
„Kirkjuráð hlýtur að taka sig til og skoða þetta mál miklu betur, áður en hlaupið er í vafsamar ákvarðanir,„ segir Ketill Sigurjónsson.
Kirkjan hefur verið treg til þess að gefa upplýsingar um málið eins og Jóhanna og fjölskylda hafa óskað eftir.