Máli yfirlæknis réttargeðdeildarinnar á Sogni verður vísað til lögreglu, að því er Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir. „Þarna er maður sem er að sækja lyf fyrir aðra en þá sem þau eru skrifuð á, og án þeirra vitneskju. Þá er málið orðið ansi alvarlegt. Málið í heild sinni verður því sent lögreglu til rannsóknar.“
Líkt og komið hefur fram varð Magnús Skúlason, yfirlæknir á Sogni, uppvís að svikum sem fólu í sér að hann fékk aðra lækna til að skrifa upp á mikið magn amfetamíns og rítalíns. Talið er að á annað þúsund töflur hafi verið fengnar með þessum hætti. Magnús átti sér vitorðsmann sem sótti lyfin fyrir hann í lyfjaverslanir. Hann hefur starfað á Litla-Hrauni en var sagt þar upp störfum fyrir um ári.
Í framhaldi af því að upp komst um athæfið var Magnúsi sagt upp störfum. Því starfar nú aðeins einn geðlæknir á Sogni, hollenskur geðlæknir að nafni John Donne de Niet. Hann starfar bæði í fangelsinu á Litla-Hrauni og á réttargeðdeildinni.
Fram kom í fréttum RÚV í gær að Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segði að fyrir tveimur mánuðum hefði Landlæknisembættinu verið bent munnlega á að Magnús virtist vera viðriðinn útgáfu lyfseðla á ávanabindandi lyf.