Borgarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks spurðust á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag fyrir um uppsögn trúnaðarmanns hjá Strætó bs. sem fréttir bárust af í byrjun vikunnar. Segja borgarfulltrúarnir að framkvæmdastjóri Strætó virðist hafa brotið lög á trúnaðarmanninum með því að segja honum upp.
Í bókun borgarfulltrúanna segir, að eftir að Strætisvögnum Reykjavíkur var breytt í Strætó bs. hafi umræður og ákvarðanir um málefni fyrirtækisins færst úr sölum borgarráðs og borgarstjórnar inn í stjórn hins nýja fyrirtækis. Nú berist fréttir af því að einum af trúnaðarmönnum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hafi verið sagt upp störfum hjá Strætó bs. en trúnaðarmenn verkalýðsfélaga eigi lögvarðan starfsrétt gagnvart atvinnurekendum sínum.
Vísað er til þess að samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna skuli trúnaðarmaður l í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til þessa trúnaðarstarfs. Óheimilt sé að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegni starfi trúnaðarmanns og sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna, sem ráðnir eru með uppsagnarfresti, skuli hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
„Samkvæmt þessu virðist framkvæmdastjóri Strætó bs. hafa brotið lög á einum trúnaðarmanni starfsmanna fyrirtækisins og því er spurt hvort borgarstjórinn í Reykjavík og fulltrúi hans í stjórn fyrirtækisins ætli að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp milli starfsmanna og yfirstjórnar Strætó bs," segir í bókun borgarfulltrúanna.