Tjöld við grunnskóla á skjálftasvæðunum í nótt

Stólar settir upp við Sólvallaskóla á Selfossi þar sem fjöldahjálparstöð …
Stólar settir upp við Sólvallaskóla á Selfossi þar sem fjöldahjálparstöð var sett á stofn. mbl.is/Golli

Sett verða upp tjöld í nótt við grunnskólana í Þorlákshöfn, á Eyrarbakka og Stokkseyri og í Hveragerði. Þar verða hjálparsveitamenn á vakt og þangað geta heimamenn leitað eftir aðstoð. 

Í samhæfingarstöð almannavarna er nú unnið að því að ná yfirsýn  stöðu mála á Suðurlandi. Segir í tilkynningu, að mikil mildi sé hve fáar tilkynningar hafi borist  um slys á mönnum.Hins vegar sé eignatjón mikið, sérstaklega í Hveragerði og nágrenni.  Í Hveragerði fóru lagnir víða í sundur og einnig varð neysluvatn gruggugt.

Nú eru um 300 björgunarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu á vettvangi, lögreglumenn eru um 40 og frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru 26 menn auk tækja og búnaðar.  Fjöldahjálparstöðvar á vegum Rauða kross Íslands eru við grunnskólann í Hveragerði og við Sólvallaskóla á Selfossi og verða þær opnar í nótt.

Í dag voru opnaðar fjöldahjálparstöðvar í grunnskólanum í  Þorlákshöfn og í safnaðarheimilinu á Hellu. Einnig voru opnaðar miðstöðvar á Hvolsvelli, Hellu, Þykkvabæ, Stokkseyri og Eyrarbakka. Lítil aðsókn hefur verið í þær og verður þeim lokað í kvöld.

Ekki reyndist þörf á að opna fjöldahjálparstöð í Menntaskólanum í Hamrahlíð.  Þeim, sem ekki vilja dvelja á skjálftasvæðunum í nótt og hafa ekki í önnur hús að venda í Reykjavík, er þó bent á að hafa samband við fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins í Vallarskóla á Selfossi og við íþróttamiðstöðina í Hveragerði því fjölmargir hafa sett sig í samband við Rauða krossinn og boðið húsnæði fyrir þá sem þurfa.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert