28 slösuðust í skjálftanum

Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu.
Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu. mbl.is/Frikki

Samtals slösuðust 28 í jarðskjálftanum í dag,  þar af voru 21 með minniháttar meiðsl. 7 leituðu aðstoðar á slysadeild. Fjöldi manns komu í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins, sem haldið var opnum fram eftir kvöldi í gær á Suðurlandi og verður stöðvunum bæði á Selfossi og Hveragerði haldið opnum áfram eftir því sem þörf krefur.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu, sagði ótrúlegt að ekki hefðu orðið alvarleg slys á fólki í skjálftunum.

Björgunarsveitamenn fóru í öll hús á skjálftasvæðinu í kvöld, þar á meðal alla sveitabæi og sumarbústaði og voru að ljúka yfirferð sinni um miðnættið. Vakt var skipulögð á öllum þéttbýlisstöðum í nótt.

Að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra eru vegir á jarðskjálftasvæðinu orðnir færir og hefur Vegagerðin lagfært sprungur og misfellur sem mynduðust í jarðskjálftanum. Í nágrenni Torfastaða í Grafningi  rann stykki úr vegkantinum.

Um 75 heimilismanna í smáhúsunum við Ás í Hveragerði gista hjá aðstandendum, þar fóru mörg hús illa. Búið er að koma 50 heimilismanna fyrir á sjálfu heimilinu að Ási, auk þess sem 26 manns dveljast þar á hjúkrunardeildinni.

Vatn hefur verið gruggugt víða á svæðinu og til að leysa vatnsmálin voru tankbílar með vatn sendir bæði til Selfoss og Hveragerðis, auk drykkjarvatns á flöskum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert