Enn að ná sér eftir skjálftann

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir daginn í dag hafa farið í að meta umfang þess tjóns sem jarðskjálftinn á Ölfussvæðinu olli. Hún segir fólk enn vera að ná sér eftir gærdaginn, enda var hamagangurinn mikill eins og sést á myndum sem eru úr öryggismyndavél Hótels Arkar í Hveragerði.

Fjöldi fólks hefur leitað liðsinnis starfsmanna fjöldahjálparmiðstöðvar í Sólvallaskóla á Selfossi. Teymi sálfræðinga og presta hefur til að mynda veitt áfallahjálp og nýttu tugir íbúa sér þá þjónustu, enda margir skelkaðir. Fólk hafði margar sögur að segja.

Í allan dag var einnig straumur af fólki í miðstöðina til að ná í flöskuvatn, en kranavatnið á Selfossi var enn gruggugt og óhæft til drykkjar. Jónína Magnúsdóttir var ein þeirra, en hún var erlendis þegar skjálftinn reið yfir og kom að húsi sínu algerlega í rúst.

Öll þjónusta á skjálftasvæðinu lá meira eða minna niðri í dag og bæði grunnskólar og leikskólar voru lokaðir. Almenningur hélt sig að mestu heima og voru flestir að huga að eignatjóni og hreinlega að taka til.

Margrét Stefánsdóttir og Ólafur Hafsteinn Einarsson, hrossabændur á Hvoli í Ölfusi, eyddu deginum í að sópa upp glerbrot og raða bókum í hillur, en býli þeirra er nánast á þeim stað þar sem upptök jarðskjálftans var. Innandyra er enn allt á rúi og stúi, en þau segja ótrúlegt hvað skemmdir voru litlar á íbúðarhúsi þeirra. Vélaskemma á staðnum er hins vegar ónýt, að þau telja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka