Almannavarnanefndir Árborgar og nágrennis og Hveragerðis hafa ákveðið að höfðu samráði við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að aflétta hættuástandi vegna jarðskjálfta. Ekki er gert ráð fyrir fleiri stórum skjálftum þótt búast megi við eftirskjálftum.
Í tilkynningu frá almannavarnanefndunum segir, að drykkjarvatn sé víða gruggugt. Íbúum á Eyrarbakka og Stokkseyri er bent á að sjóða drykkjarvatn. Unnt er að nálgast drykkjarvatn við fjöldahjálparstöðvar á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem þar eru í tjöldum og við fjöldahjálparstöðina í Vallaskóla við Sólvelli á Selfossi. Drykkjarvatn í Hveragerði er í lagi. Starfsmenn Rauða kross Íslands veita áfallahjálp á þéttbýlisstöðum.
Kynningarfundur Rauða krossins um afleiðingar jarðskjálfta verður haldinn í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 19:30, fyrir íbúa Eyrarbakka og Stokkseyri, en allir eru velkomnir til fundar.
Starfsemi leikskóla og skólavistunar í Árborg verður með hefðbundnum hætti á mánudaginn. Starfsemi Sunnulækjarskóla og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri verður samkvæmt áður ákveðnu skipulagi. Starfsemi Vallaskóla verður með lítið eitt breyttu sniði, og má lesa nánar um það á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar, www.arborg.is.