Hvergi banginn

Mikið jarðrask varð í Ingólfsfjalli í skjálftanum í gær, enda upptök hans við rætur þess. Sigfús Guðmundsson jarðýtustjóri er hvergi banginn og ætlar ekkert að hætta að vinna í Þórustaðanámu jafnvel þótt hann hafi verið staddur hátt uppi í fjallinu þegar allt lék á reiðiskjálfi þar í gær. Mikil mildi þykir að allir vinnufélagar hans hjá Fossvélum, sem voru að störfum í gær voru í kaffihléi þegar jarðskjálftinn reið yfir.

Sigfús lýsir því svo að hann hafi tekið sér hlé frá vinnu og hafi verið að hella upp á í hjólhýsi sem hann hefur til umráða þegar lætin byrjuðu. Honum varð litið út og sá allt á hreyfingu og mikinn rykmökk stíga upp af fjallinu. Þegar hann áttaði sig á því hvers kyns var, var hans eina hugsun hvort fjölskylda og vinnufélagar væru hólpnir.

Grjóthrun varð víða í Ingólfsfjalli og má hvarvetna sjá stærri og minni sár í hlíðum þess. En námuvinnan heldur áfram og menn voru að störfum þar í dag eins og ekkert hefði í skorist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert