Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vísar því alfarið á bug að mannréttindabrot eigi sér stað í Guantanamo, líkt og gefið er í skyn í þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti í gær.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra greindi Rice frá afstöðu þingsins, en í ályktuninni er hvatt til þess að fangabúðunum verði lokað.
„Guantanamo er staður sem sjálfur forsetinn hefur viljað láta loka. Vandamálið er hins vegar hvað á að gera við það hættulega fólk sem er þar. Bandaríkin hafa reynt að senda fólkið aftur til síns heimalands. Það hefur tekist í mörgum tilfellum. Því miður hefur það komið fyrir við höfum hitt sama fólkið aftur á vígvellinum,“ sagði Rice á blaðamannafundi í Höfða í dag.
Á blaðamannafundinum lýsti Rice jafnframt ánægju sinni með að heimsækja landið og kvaðst hún vera sérstaklega ánægð með að fá að heimsækja Höfða þar sem leiðtogafundurinn var haldinn.
Rice lýsti einnig yfir ánægju sinni með að fá tækifæri til að ræða samskipti ríkjanna, og mikilvægi varnarsamstarfsins. Hún sagði að það hefði verið nauðsynlegt að færa varnarsamstarfið í nútímalegra horf, og vísaði til þess þegar Bandaríkjaher yfirgaf Ísland árið 2006.
Aðspurð sagði Rice að hún og Ingibjörg Sólrún hefðu sammælst um að taka varnarsamningin til skoðunar eftir nokkra mánuði til að sjá hvernig samstarfið hafi gengið og hvað megi fara betur.
Ráðherrarnir ræddu einnig um málefni Afganistans og Rice sagði framlag Íslendinga þar vera mikilvægt.
Rice fundaði í framhaldinu með Geir H. Haarde forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum.