Mjög margar tilkynningar bárust um tjón á húsum á Selfossi, í Hveragerði og í Ölfusi. Strax var ljóst að mörg hús voru ónýt en ekki liggur fyrir hve mörg þau eru. Talið er að það geti liðið langur tími þar í ljós kemur hve mikið tjónið er.
Mjög margar tilkynningar um tjón á innbúi á sömu stöðum en minna hefur borist af tjónatilkynningum fyrir austan Selfoss. Þetta kom fram á blaðamannafundi í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag þar sem farið var yfir atburðarásina frá því er skjálftinn reið yfir klukkan 15:45 í gær.
Þjónustumiðstöð væntanlega opnuð á mánudag
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á blaðamannafundinum að ákveðið hafi verið að setja upp þjónusutmiðstöð fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna jarðskjálftanna. Lagði Björn þetta til á ríkisstjórnarfundi í morgun og var tillagan samþykkt.
Að miðstöðinni munu koma Árborg, Ölfus, Hveragerði, sveitarfélögin í Flóa og Grímsnesi, Viðlagatrygging, Rauði krossinn, landlæknir og aðrir, sem veita íbúðum á svæðinu þjónustu vegna skjálftanna.
Íbúar á jarðskjálftasvæðinu geta leitað til þjónustumiðstöðvarinnar eftir hvers kyns aðstoð í tenglsum við afleiðingar skjálftans. Gert er ráð fyrir því að þjónustumiðstöðin verði staðsett á skjálftasvæðinu og starfrækt næstu mánuði. Ekki liggur fyrir nú hvar hún verði staðsett en helst er horft til Selfoss enda mest miðsvæðis.
Fram kom á blaðamannafundinum að þjónustumiðstöðin taki væntanlega til starfa á mánudag.
Ríkisstjórnin lítur þannig á að næsta skref sé að koma íbúum til aðstoðar. Aldrei hefur verið farið í viðlíka aðgerðir enda hafi menn lært af reynslunni frá Suðurlandsskjálftunum í júní 2000, sagði Björn.
Hann sagði mikilvægt að til staðar sé þjónustumiðstöð þar sem hægt er að leita til eftir aðstoð af öllu tagi. Verið er að leita að húsnæði fyrir þjónustumiðstöðina. Þar verður íbúum boðið upp á hvers kyns aðstoð í tengslum við afleiðingar skjálftans.
Þar verður meðal annars veitt liðsinni vegna tryggingamála hvort sem um er að ræða tjón sem Viðlagatrygging bætir eða almenn tryggingafélög. Einnig mun þjónustumiðstöðin leggja lið varðandi tryggingabætur og mat á tjóni vegna jarðskjálftans. Þá verður veitt áfallahjálp á vegum þjónustumiðstöðvarinnar.
Tetrakerfið sannaði gildi sitt
Allt gekk vel miðað við þær aðstæður sem unnið var við. Að sögn Víðis Reynisson, hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gengu fjarskiptin afskaplega vel. Þakkaði Víðir nýju Tetra-kerfi sem allir viðbragðsaðilar hafa aðgang að því að fjarskiptin gengu betur en áður er sambærilegar náttúruhamfarir hafa skollið á. Mikill kostur að hafa það kerfi í gær, sagði Víðir.
Ákveðið að bæta sjúkrastofnunum inn á kerfið
Björn Bjarnason bætti því við að ákveðið hafi verið á ríkisstjórnarfundi í morgun að leggja fé í að koma kerfinu á hjá sjúkrastofnunum. Kom í ljós í gær að fjarskiptin við þá sem voru inni á sjúkrastofnunum rofnaði.
Að sögn Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra er enn verið að veita aðstoð á skjálftasvæðinu. Til að mynda er fólki veitt áfallahjálp sem þess óskar. Eins við að rétta við þunga hluti á heimilum svo fátt eitt sé nefnt. Björgunarþátturinn heldur því áfram í dag og á morgun, sagði Jón en vonir standa til að eftir það verði þjónustumiðstöðin tekin til starfa.
Hann segir að bæði Tetra og Samhæfingarmiðstöðin hafi gjörbylt neyðaraðstoð á Íslandi og gert það að verkum að skipulag gengur mun betur. Neyðaraðstoð hafi tekið stórstígum framförum á Íslandi.
Vallarskóli rýmdur þar sem talið var að húsið væri skaddað
Síðastliðna nótt gistu þrír í fjöldahjálparmiðstöðinni í Hveragerði, 11 gistu í miðstöðinni í Vallaskóla á Selfossi og 6-7 í tjaldi fyrir utan. Verða fjöldahjálparstöðvarnar opnar eins lengi og þurfa þykir.
Vallaskóli var raunar rýmdur rétt fyrir klukkan sjö í morgun þar sem óttast var að húsið væri skaddað. Einungis var um öryggisráðstöfun að ræða og er skólinn í fullri notkun nú.