Rice tók ásakanir um mannréttindabrot óstinnt upp

Rice og Ingibjörg Sólrún í Höfða eftir fund þeirra í …
Rice og Ingibjörg Sólrún í Höfða eftir fund þeirra í dag. mbl.is/Jón Pétur

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mótmælti í dag þingsályktun, sem Alþingi samþykkti í nótt, um að verið væri að fremja mannréttindabrot í fangabúðunum við Guantánamoflóa á Kúbu.

„Ég vísa því á bug að brotið sé gegn mannréttindum í Guantánamo eins og gefið er í skyn í ályktuninni," sagði Rice á blaðamannafundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Höfða í morgun.

Rice sagði, að Ingibjörg Sólrún hefði afhent sér afrit af ályktuninni 
en í henni segist Alþingi fordæma ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantánamo-flóa á Kúbu og hvetur Bandaríkjamenn til að loka búðunum.

„Forsetinn hefur sjálfur sagt að hann vilji láta loka Guantánamo en vandamálið er hvað gera eigi við hættulega fanga," sagði Rice.

Nú eru um það bil 270 fangar í búðunum og eru allir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi eða tengsl við hryðjuverkamenn. Enginn þeirra er bandarískur.

„Við hvetjum til þess, að áður en fólk gagnrýnir það sem fram fer í Guantánamo, þá kynni það sér skýrslu, sem þingmannaráð Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu lét gera. Það væri áhugavert að þing ykkar læsi þá skýrslu og ég mun koma eintaki á framfæri," sagði Rice á fundinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka