Skemmdir á safngripum í byggðasafni

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skoðaði skjálftasvæðið í kvöld og …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skoðaði skjálftasvæðið í kvöld og sést hér í Hveragerði. mbl.is/Daníel

Skemmdir urðu á safngripum í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka í jarðskjálftanum í dag en engar skemmdir urðu á húsakynnum, að sögn Lýðs Pálssonar safnstjóra.

Lýður sagði í samtali við Morgunblaðið í kvöld að safngripir hefðu fallið úr hillum í geymslum safnsins en óvíst væri um tjón vegna þess að hann hefði ekki komist inn í eina geymsluna í þjónustuhúsi byggðasafnsins.

Skemmdir urðu á munum á fastasýningu safnsins í svonefndu Assistentahúsi. „Þar brotnuðu sýningarskálar og einhverjar skemmdir urðu á safngripum úr gleri og postulíni,“ sagði Lýður. „Á öðrum stöðum á safninu urðu litlar sem engar skemmdir þótt safngripir hefðu fallið um koll eða myndir færst til.“

Lýður bætti við að byggðasafninu yrði ekki lokað þótt sýningin yrði fátæklegri fram eftir sumri vegna skjálftans. „Þetta kom mér í opna skjöldu vegna þess að í jarðskjálftunum árið 2000 haggaðist ekki neitt hérna, hvorki í safninu eða í geymslum þess,“ sagði Lýður.

„Þetta var mjög óhugnanlegt, ég var á skrifstofunni minni og þurfti að halda í bókaskáp til að koma í veg fyrir að hann félli á mig. Aðrir bókaskápar féllu niður.“

 Lýður kvaðst eiga von á starfsmönnum Þjóðminjasafnsins á morgun til að aðstoða hann og læra af reynslunni, meta hvað hægt væri að gera til að afstýra því að verðmætir safngripir skemmdust í jarðskjálftum sem kynnu að ríða yfir Reykjavík eða önnur svæði á landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert