Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt tvo 17 ára pilta í mánaðar skilorðsbundið fangelsi hvorn og til að greiða 100 þúsund króna sekt fyrir að stunda kappakstur um götur Húsavíkur. Mennirnir voru einnig báðir sviptir ökuréttindum í hálft ár.
Kappaksturinn fór fram á nóvemberkvöldi á síðasta ári. Píltarnir óku 580 metra vegarkafla í miðbænum en báðir voru með farþega í bílum sínum. Annar pilturinn ók bíl sínum hluta leiðarinnar á vinstri akgrein gegn akstursstefnu og ökuhraðinn var 80 til 90 kílómetrar á klukkustund þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 kílómetrar.
Kappakstrinum lauk með því, að annar pilturinn missti stjórn á bíl sínum sem lenti upp á gangstétt og skall síðan á steyptum vegg sem brotnaði. Snérist bíllinn við höggið og endaði í húsagarði. Ökumaðurinn meiddist töluvert, tveir hryggjarliðir féllu saman og hann tognaði í baki, hálsi og hægri öxl.