Tannlæknir og sjúklingur hlupu út í miðri aðgerð

Svona var útlítandi í bílskúr í Hveragerði.
Svona var útlítandi í bílskúr í Hveragerði. mbl.is/Guðmundur Karl

Þórður Birgisson var nýbúinn að bora burt skemmd úr tönn sjúklings á tannlæknastofu sinni í Hveragerði þegar skjálftinn reið yfir.

„Herbergið fór allt að hristast til og allir hlupu út úr húsinu, og sjúklingurinn með ófyllta tönn,“ segir Þórður sem gat ómögulega látið sjúklinginn fara frá sér með tönnina ófrágengna.

„Þrisvar sinnum reyndi ég að komast inn á stofuna aftur, þegar ég hélt að skjálftarnir væru loksins hættir, en allaf kom nýr skjálfti einmitt þegar ég var á leið í húsið,“ segir Þórður sem þurfti að bíða í um hálftíma úti á grasflöt áður en hann gat komist inn á stofuna að sækja nauðsynleg verkfæri.

Tannfyllingin var svo blönduð fyrir utan húsið og komið fyrir í holunni úti á stétt en gott veður og birta gerðu Þórði kleift að ljúka verkinu vandræðalaust. Segir Þórður þetta í fyrsta skipti sem hann gerir tannaðgerð utanhúss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert