Tíðindalítil nótt

mbl.is/Kristinn

Rólegt var yfir öllu á Selfossi og í Hveragerði í nótt en einhver hópur fólks gisti í tjöldum fyrir utan Vallaskóla á Selfossi þar sem fjöldahjálparstöð er á vegum Rauða krossins. Í Hveragerði gistu einhverjir í eigin tjöldum og fellihýsum en Rauði krossinn er einnig með fjöldahjálparstöð þar.

Farið sumarbústaði og öll hús í dreifbýli sem og þéttbýli

Samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarstöð almannavarna fóru björgunarsveitarmenn í Slysavarnafélaginu Landsbjörgu í alla sumarbústaði og hús í dreifbýli frá Borg í Grímsnesi og á Árborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Lauk því starfi á milli tvö og þrjú í nótt og virtust engar stórskemmdir vera á bústöðum né sveitarbæjum sem farið var á og ekki var búið að tilkynna um. Fyrr um kvöldið luku björgunarsveitarmenn við að fara í hvert hús í þéttbýli á sama svæði.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum liggur ekki nákvæmlega fyrir hversu miklar skemmdir voru á húsum á svæðinu enda miklu frekar tilgangurinn með eftirliti björgunarsveita að kanna hvort einhver þyrfti á aðstoð að halda.

Eins og fram kom í gærkvöldi slösuðust 28 manns í skjálftanum sem reið yfir síðdegis í gær og samkvæmt upplýsingum frá Samskiptastöð tekur talsvert langan tíma að meta hve mikið tjónið er fjárhagslega.  

Samskiptamiðstöðin verður starfrækt þar til síðdegis í dag. Eins og áður sagði rekur Rauði krossinn fjöldahjálpastöðvar í Hveragerði og Selfossi og hefur talsverður fjöldi leitað þangað. Rauði krossinn gat leyst úr öllum þeim gistimálum sem til þeirra komu en margir gista hjá ættingjum og vinum. Eins var fólki á öldrunar- og hjúkrunarheimilum komið fyrir á öruggum stöðum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er með mannskap og bíla í Hveragerði og Ölfussi og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ásamt sérsveit lögreglunnar eru einnig með viðbúnað á svæðinu.

Tankbíll er staðsettur við Vallaskóla á Selfossi þar sem í ljós kom að neysluvatn var gruggugt og vilja almannavarnir koma þeim skilaboðum til almennings á Selfossi að sækja sér neysluvatn í tankbílinn. 

Frá fjöldahjálparstöð í Hveragerði
Frá fjöldahjálparstöð í Hveragerði
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka