„Sem einn sakborninga í Baugsmálinu hef ég lagalegan rétt – sem ég hef nýtt mér – til að fá aðgang að öllum málsskjölum og gögnum málsins. Vegna fjölda áskorana hef ég nú ákveðið að birta opinberlega hluta af þessum gögnum þar sem illskiljanlegt er hvernig íslenskir dómstólar hafa tekið á Baugsmálinu að mínu mati."
Svo segir Jón Gerald Sullenberger í formála á vefsvæði sínu, baugsmalid.is. Þar er að finna málsskjöl og skýringar Jóns Geralds á ýmsum þáttum. Jón Gerald segist hafa sett vefsvæðið upp til að opna augu Íslendinga.
„Þarna eru ekki nein leiðindi í garð Baugsmanna. Þetta eru bara gögnin og svo verður fólk að lesa þau og kynna sér málið,“ segir Jón og bætir við að hugsanlega verði bætt við fleiri gögnum síðar.
Gögnunum er raðað upp í kafla og bera þeir heiti á borð við „Hvert fóru allir peningarnir?“ og „Lögmenn Baugs og sannleikurinn“. Í þeim leitast Jón Gerald við að skýra málið frá sinni hlið og notar málsgögn því til stuðnings. Auk þess dregur hann saman þær spurningar sem hjá honum hafa vaknað við lestur gagnanna.
Spurður hvort vefsvæðið sé vísir að útgáfu bókar um Baugsmálið segir Jón Gerald allt opið í þeim efnum. „Það hefur einn ágætur maður sent mér póst þar sem hann spyr út í þau mál. Það er alveg klárt mál að þetta er efni í bók.“