Gríðarleg aðsókn hefur verið að fréttavef mbl.is í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi. Þannig tvöfölduðust heimsóknir stakra notenda á fimmtudaginn, þegar tekið er meðaltal síðustu fjögurra vikna fyrir fimmtudaga. Fyrsta fréttin af jarðskjálftunum var lesin 87.568 sinnum og aðrar fréttir sem fylgdu í kjölfarið fengu einnig mjög mikinn lestur. Mikil aðsókn var einnig að vefnum í gær.
Eins og gefur að skilja var álag á mbl.is afar mikið á þessu tímabili. Vefurinn komst þó klakklaust í gegnum þá þolraun. Munaði þar mestu að nýlega var bandvídd vefjarins fimmfölduð ásamt því að keyptir hafa verið nýir miðlarar til að ráða betur við álagið.
Settur hefur verið upp hnappur á forsíðu mbl.is þar sem hægt er að fylgjast með öllum fréttum og fréttamyndskeiðum um jarðskjálftana.