Mýflugnastofnar við Mývatn eru nú í hámarki. Flugurnar eru nú að leita lands og mynda mikil ský þegar logn er. Aðra sögu er að segja um bitmýið úr Laxá. Það er raunar ekki farið að sjást við vatnið og ekki vitað hvort mikið verður af því í sumar.
„Skýin rísa eins og svartur kolareykur upp úr gígunum við vatnið. Þetta er hreint náttúruundur og heilmikil upplifun að fylgjast með,“ segir Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. Hann var þá staddur úti í móa í Syðri-Neslöndum við rannsóknir.
Rykmýið gengur í gegnum miklar náttúrulegar sveiflur sem oftast standa í fimm til sjö ár. Árni Einarsson segir að stofnarnir séu í hámarki í ár og kannski einnig á næsta ári en svo fari væntanlega að draga úr. Síðasta hámark var árið 2000 en Árni telur útlit fyrir að enn meira verði af mýi í ár en þá var. Þegar stofnarnir eru í lágmarki er nánast ekkert um flugu í vatninu.
Árni hefur rannsakað mýið í þrjátíu ár, fylgt sveiflunum eftir og reynt að finna skýringar á þeim. „Sveiflurnar eru knúnar áfram af mýflugunum sjálfum. Þegar mikið er á botninum eins og nú þá éta þær upp fæðuna fyrir sjálfa sig og afkomendurna. Það kemur niður á næstu kynslóðum á eftir. Þá fer þetta í niðursveiflu sem er óstöðvandi þangað til nánast ekkert mý er eftir,“ segir Árni.