Nú standa yfir tónleikar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði í tilefni af 100 ára afmæli bæjarins. Tónleikarnir hófust klukkan 17 og standa til klukkan 23. Margir af þekktustu tónlistarmönnum og hljómsveitum landsins koma þar fram, þar á meðal Megas og Björgvin Halldórsson, Bermúda, Eurobandið, Baggalútur, Sprengjuhöllin og Sálin.
Á svæðinu hefur verið komið upp fjölmörgum grillum sem gestir geta nýtt sér á meðan á tónleikunum stendur.
Afmælishátíðin hófst á fimmtudag og henni lýkur á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ hefur verið mikið af fólki í bænum í dag enda hefur heldur betur viðrað fyrir útihátíðarhöld.
Á morgun, sem er hinn eiginlegi afmælisdagur bæjarins, verður sjómannabragur á hátíðardagskránni enda er þá sjómannadagurinn. Slegið verður upp bryggjuballi og fiskiveislu á hafnarbakkanum auk þess sem boðið verður upp á 100 metra langa tertu á Strandgötunnu.
Dagskrá afmælishátíðarinnar á morgun