Snarpir kippir í nótt og morgun

Eftir sjálftann stóra á fimmtudag.
Eftir sjálftann stóra á fimmtudag. mbl.is/Golli

Tveir eftirskjálftar, annar 3,5 stig á Richter og hinn 3,8 stig urðu í nótt á skjálftasvæðinu í Ölfusi. Fyrri kippurinn varð klukkan 1:57 og hinn klukkan 2:07. Í morgun klukkan 7:11 varð skjálfti sem mældist 2,9 stig. Einnig varð fjöldi minni skjálfta á svæðinu en heldur er þó að draga úr skjálftavirkni, að sögn sérfræðinga Veðurstofunnar.

Skjálftavirknin var fyrri hluta nætur mest við suðurenda meginsprungunnar um 5 km norðan við Eyrarbakka. Skjálftinn klukkan sjö varð hins vegar á meginsprungunni um 3 km norðan við Hveragerði.

Einnig hefur verið skjálftavirkni um 5 km suðvestur af Skálafelli á Hellisheiði. Þar varð skjálfti að stærð 2,6 klukkan 3:33 í nótt.

Bæjarstjórn Árborgar hefur boðað til íbúafundar vegna jarðskjálftanna  klukkan 17 í dag í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Þjónustumiðstöðvar, sem opnaðar hafa verið á Selfossi og í Hveragerði, verða opnar í dag frá klukkan 10 til 16. Fjöldi íbúa hefur nýtt sér þjónustu miðstöðvanna. Þar hafa starfsmenn bæjarfélaganna, sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum og björgunarsveitunum, frá lögreglunni og almannavörnum, gefið íbúum ráð og aðstoðað með ýmis mál vegna jarðskjálftana.

Á Selfossi er þjónustumiðstöðin í Tryggvaskála en í Hveragerði er þjónustumiðstöðin í húsi Rauða krossins á jarðhæð.  Eftir helgina verða þjónustumiðstöðvarnar opnar frá klukkan 13  –20.

Að sögn lögreglu er drykkjarvatn í Hveragerði ekki talið drykkjarhæft. Drykkjarvatn í Árborg er hins vegar talið drykkjarhæft.  Hægt verður að nálgast drykkjarvatn á flöskum utan við söluskála Shell á Stokkseyri og við söluskála Olís á Eyrarbakka. Á Selfossi er unnt að nálgast drykkjarvatn í Tryggvaskála. Í Hveragerði verður hægt að nálgast drykkjarvatn í húsi hjálparsveitarinnar við Austurmörk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert