Varnarmálastofnun Íslands tekin til starfa

Merki Varnarmálastofnunar Íslands.
Merki Varnarmálastofnunar Íslands.

Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa í dag, en stofnunin sinnir varnartengdum verkefnum. Hún heyrir undir utanríkisráðherra er ber ábyrgð á öryggis og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.

„Með því að reka íslenska loftvarnarkerfið og sjá um önnur þau eftirlits- og varnartengdu verkefni sem nýstofnsett Varnarmálastofnun á að sinna erum við Íslendingar í senn að axla ábyrgð á eigin vörnum og um leið að leggja til sameiginlegs öryggis grannríkja okkar á Norður-Atlantshafi og bandalagsríkja í NATO. Þannig rækjum við skyldur okkar sem sjálfstætt, fullvalda ríki,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, við opnun Varnarmálastofnunarinnar.


Af verkefnum hinnar nýju stofnunar ber hæst rekstur íslenska loftvarnakerfisins en íslensk stjórnvöld tóku við yfirstjórn þessa og rekstri Ratsjárstofnunar úr hendi Bandaríkjanna 15. ágúst 2007. Varnarmálastofnun mun reka öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll, Miðnesheiði, Helguvík, Bolafjall, Gunnólfsvíkurfjall og Stokksnes, og annast rekstur mannvirkja NATO hérlendis. Gert er ráð fyrir að stofnunin vinni úr upplýsingum frá NATO og veita gistiríkisstuðning vegna loftrýmisgæslu sem hófst hérlendis á vormánuðum.

Ellisif Tinna Víðisdóttir er forstjóri Varnarmálastofnunar en gert er ráð fyrir að upp undir fimmtíu manns munu starfa þar. Stofnunin er til húsa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, vefsetur hennar er www.varnarmalastofnun.is.

Áætlaður heildarrekstrarkostnaður til varnarmála árið 2008 er 1.350 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert