Nokkrir barrfinkuungar hafa sést í Reykjavík og víðar undanfarna daga. Brynjúlfur Brynjólfsson hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði segir þetta vísbendingu um að mörg barrfinkupör komi til með að verpa hér á landi í sumar.
Þangað til í fyrra var barrfinka í flokki sjaldgæfra fugla á Íslandi. Frá upphafi fuglatalninga hér á landi höfðu aðeins fundist 209 barrfinkur, svo staðfest væri. Í fyrrahaust kom hins vegar stór ganga til landsins. Brynjúlfur telur að í henni hafi verið nokkur hundruð barrfinkur. Önnur ganga hafi komið í vor og nú sé ljóst að mörg pör komi til með að verpa hér á landi í sumar. Fram að þessu hafa fáar barrfinkur komið upp ungum á Íslandi. Þó er vitað um a.m.k. tvö eða þrjú pör sem hafi verpt á Tumastöðum í Fljótshlíð og einnig er staðfest að barrfinkur hafi verpt á Reynivöllum í Suðursveit.
Barrfinkungi sást í Reykjavík 21. maí sl., líklega sá fyrsti á þessu vori, en Brynjúlfur segir að búið sé að finna nokkur hreiður síðan.