Stuttur leiðangur var nýlega farinn á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar á Hannesi Andréssyni SH,
í Aðalvík til að kanna útbreiðslu og magn sæbjúgans brimbúts á svæðinu. Í 15 mínútna togi veiddust 400-800 kíló.
Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir, að töluvert hafi veiðst af brimbút sem aukaafla við hörpudiskveiðar bæði hérlendis og í Kanada og hafi yfirleitt verið skilað í sjóinn aftur þar sem talið sé að dýrin drepist. Veiðar á brimbút hófust í Kanada rétt eftir aldamótin síðustu og lofa góðu þar sem þessi tegund þykir eftirsóknarverð vegna útlits og bragðs, en möttullinn er nýttur til matar.
Veiðar á brimbút hófust á Íslandi árið 2003 og er aflinn seldur til manneldis í Kína. Við veiðarnar er notaður léttur skíðisplógur 2 m að breidd. Aðalveiðisvæðin hafa verið í sunnanverðum Breiðafirði, Faxaflóa og Aðalvík.