Gríðarlegt verkefni framundan við að lagfæra hús og mannvirki

Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu.
Mikið tjón varð á innbúi á jarðskjálftasvæðinu. mbl.is/Frikki

„Allir eru boðnir og búnir til að aðstoða og vinna með þegar svona stendur á. Það er eitt af því stórkostlega við Íslendinga, hvað þeir standa vel saman þegar á reynir,“ sagði Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, í gær á fjölmennum íbúafundi vegna Suðurlandsskjálftanna. Á fundinum voru fulltrúar frá sveitarfélaginu, almannavörnum, lögreglu, björgunarsveitum, Rauða krossinum, Heilbrigðisstofnun og Viðlagatryggingu Íslands.

Bæjarstjórnin hefur ákveðið opnunartíma þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur skjálftanna fram á miðvikudag. Verður þjónustan veitt í samræmi við eftirspurn og miðstöðin höfð opin frá kl. 13-20 daglega til og með miðvikudegi og síðan næstu skref ákveðin. Þar verða alltaf að minnsta kosti þrír fulltrúar til að taka á móti fólki, einn frá sveitarfélaginu, annar frá Rauða krossi Íslands og sá þriðji frá björgunarsveitum. Á ákveðnum tímum verða síðan fleiri fulltrúar frá Rauða krossinum til að veita áfallahjálp.

Ragnheiður hvatti alla til að leita til þjónustumiðstöðvarinnar með hvaðeina sem varðar afleiðingar jarðskjálftanna.

Skiptir miklu máli að fá hjólin til að snúast á ný

„Og við reynum að aðstoða ykkur,“ sagði hún. „Það skiptir miklu máli að hjólin fari að snúast með eðlilegum hætti.“

Frumathugun sérfræðinga hefur leitt í ljós að sjö íbúðarhús eru óíbúðarhæf í Árborg einni og sagði Ragnheiður að ekki væri ósennilegt að fleiri hús ættu eftir að falla í þann flokk.

Starfshópur á vegum Árborgar, sem hefur það verkefni að finna fólki húsnæði, tók til starfa í gærkvöld.

„Við munum leggja allt kapp á það hjá sveitarfélaginu að koma allri starfsemi í fulla virkni sem allra fyrst,“ sagði hún.

Fundargestir spurðu einkum um áhrif skjálftanna á hús og aðkomu Viðlagatryggingar Íslands. Upplýst var af Jónasi Snæbjörnssyni hjá Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftafræði að stærð skjálftans hefði verið þrisvar til fjórum sinnum minni en árið 2000 en á hinn bóginn hefðu kraftarnir sem verkuðu á mannvirki verið jafnvel meiri en fyrir átta árum, vegna grynnri skjálftaupptaka nú. „Við mældum til dæmis fjórum sinnum hærri grunnhröðun í ráðhúsinu [á Selfossi] síðastliðinn fimmtudag en árið 2000,“ sagði hann. „Hröðunin samsvaraði því að sportbíll væri fimm og hálfa sekúndu í 100 km hraða.“ Í Hveragerði var mæld heldur meiri hröðun vegna nálægðar við upptök skjálftanna.

Ásgeir Ásgeirsson, forstöðumaður Viðlagatryggingar, sagði að matsstarf hæfist af fullum þunga í upphafi vikunnar. „Við munum kappkosta að niðurstaða okkar verði réttlátt og sanngjörn og tjónþolum í hag,“ sagði hann. „Ég vonast til að þetta tjónamat gangi greiðlega fyrir sig en þetta tekur vikur og mánuði – og eitthvað tekur jafnvel ár að komast í höfn. En það mun komast í höfn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert