Félag heyrnarlausra vill koma kvörtun sinni áleiðis yfir þeirri ákvörðun Ríkissjónvarpsins að fella niður táknmálsfréttir fimmtudaginn 29. maí síðastliðinn. Þann dag gekk yfir Suðurlandsskjálftinn og var eins og skiljanlegt er sendar út fréttir frá atburðinum, að því er segir í kvörtun frá félaginu.
„Það sem ekki má gleyma er að aðgangur heyrnarlausra að fréttaefni er mjög takmarkaður og ákveðinn hópur heyrnarlausra sem og heyrnarlausir útlendingar geta eingöngu notað táknmálsfréttir sem sinn fréttamiðil. Mörgum var mjög brugðið þegar jarðskjálftinn reið yfir og átti það einnig við heyrnarlausa. Er samfélag heyrnarlausra því mjög ósátt við þá ákvörðun að fella niður táknmálsfréttir á hættustundu sem þessari," að því er segir í kvörtun frá Félagi heyrnarlausra.