Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins til 36 ára, kvaddi samstarfsmenn sína formlega í morgun og er hann nú hættur störfum. Flestir eru sammála um að brotthvarf hans úr ritstjórastóli marki tímamót í sögu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Styrmir sagði meðal annars í ræðu að þjóðmálaskoðanir hans og samtíðarmanna hans á blaðinu hefðu mótast af hörðum átökum kalda stríðsins, en með nýju fólki væru áherslurnar aðrar.
Styrmir sagði miklar breytingar hafa orðið á Morgunblaðinu þann tíma sem hann hefði starfað þar.
Hann vék einnig að því í ræðu sinni að tengsl Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins hefðu á árum áður verið of sterk og hafi ritstjórarnir tveir, hann og Matthías Johannessen, fyrir margt löngu ákveðið að slíta þeim.
Ólafur Stephensen, nýr ritstjóri Morgunblaðsins og aðalritstjóri Árvakurs, tók í dag til starfa. Hann hefur nú þegar gert ýmsar breytingar á ritstjórn Morgunblaðsins og mun stjórna því og þróa það með starfsmönnum blaðsins til næstu framtíðar.