Segir Japana hungra í hvalkjöt

Langreyður í Hvalfirði.
Langreyður í Hvalfirði. Morgunblaðið/Ómar

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir að sala á hvalkjöti til Japans frá Íslandi og Noregi til Japans sé hagkvæm fyrir allar þessar þjóðir. „Það eru margir hungraðir hvalkjötsunnendur í Japan," segir Kristján við fréttastofu Reuters. 

Kristján segist hafa sent 80 tonn af kjöti til Japans. Um er að ræða afurðir af langreyðum, sem veiddar voru árið 2006. Þá sendu Norðmenn 5 tonn af hrefnukjöti með sömu sendingu. 

Íslendingar hafa ekki selt hvalkjöt til Japans frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Norðmenn hafa ekki selt hvalkjöt til Japans frá því árið 1986 þegar hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins var sett, að sögn norsks embættismanns. Norðmenn hafa hins vegar selt hrefnukjöt til Íslands og Færeyja.

„Nú hafa útflytjendur fundið kaupendur í Japan," segir  Halvard Johansen, aðstoðarráðuneytisstjóri norska sjávarútvegsráðuneytisins, við Reuters.

Hann segir, að Ísland, Noregur og Japan viðurkenni ekki skilgreiningu CITES sáttmálans um að langreyður og hrefna séu í útrýmingarhættu. Segir Johansen, að sú skilgreining hafi verð gerð á pólitískum en ekki vísindalegum forsendum. CITES sáttmálinn bannar viðskipti með afurðir dýra og plantna í útrýmingarhættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert