Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, nýtur stuðnings rúmlega 57% landsmanna til þess að verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Stöð 2.
Svarendur voru spurðir hvern þeir teldu að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að velja sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur. Langflestir nefndu Hönnu Birnu eða rúm 57%. Næstur henni var Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi og vildu rúmlega 11% sjá hann í borgarstjórastólnum. Tæp 6% vildu fá Júlíus Vífil Ingvarsson sem borgarstjóra en innan við 5% vildu að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, tæki aftur við embættinu, samkvæmt frétt Stöðvar 2. Könnunin var gerð 22.–26. maí. Í úrtakinu voru tæplega 1.100 manns af öllu landinu, 16–75 ára. Svarhlutfall var 53,3%.
Talsvert dró úr ánægju með núverandi meirihlutasamstarf. Þannig voru 72% borgarbúa óánægð með meirihlutann en aðeins 16% þeirra voru ánægð. Af kjósendum Sjálfstæðisflokksins voru 45% ánægð með meirihlutann en 28% óánægð.