Vistvæn hvatning

Í nýrri heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, sem starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins kynnti í dag,  er m.a. hvatt til notkunar á vistvænni ökutækjum með því að leggja á losunargjald eftir koltvísýringslosun ökutækja.

Að sögn Teits Þorkelssonar, framkvæmdastjóra Framtíðarorku, er mikil  gerjun er að eiga sér stað í þróun rafmagnsbíla í heiminum. Hann segir að á ráðstefnu, sem var haldin á síðasta ári og fjallað var um orkugjafa í samgöngum, hafi allir verið sammála um að hlutur rafmagns í bílum muni aukast mjög mikið á næstu þremur til fimm árum – bæði erlendis sem og á Íslandi. Bílarnir, rafhlöðurnar og hleðslustöðvar séu í stöðugri þróun og sífellt að verða betri til að mæta kröfum neytenda.

Hann fagnar tillögum starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins, sem leggur til að sérstakt koltvísýrings-losunargjald verði tekið upp í stað vörugjalda á ökutæki, sem þýðir að því minna sem menn losa af koltvísýring því minna borga þeir. Þá kemur fram í skýrslunni að kolefnisskattur verði lagður á jarðefnaeldsneyti.

Teitur segist hins vegar vilja sjá skýrari hvata til innkaupa á bílum sem menga ekki neitt, þ.e. rafmagnsbílum sem séu væntanlegir á markað á næstu árum frá stóru bílaframleiðendunum.

Til nánari útskýringar þá greiðir bíll sem losar 0-100 grömm af koltvísýring miðað við hvern ekinn km ekkert losunargjald. Bíll sem losar 100 til 120 grömm greiðir hins vegar 5%. Munurinn er hins vegar meiri eftir því sem losunin eykst. T.d. greiðir sá sem losar á bilinu 161-180 grömm 20% losunargjald á meðan sá sem losar yfir 250 grömm greiðir hámark 60% losunargjald.

Að sögn Teits verða nokkrir helstu sérfræðingar heims í þróun rafbíla í nánustu framtíð, m.a. Frá Ford, A123 Systems rafhlöðuframleiðandanum, stærstu orkufyrirtækjum Danmerkur og Svíþjóðar á staddir á Alþjóðlegri ráðstefnu um orkugjafa framtíðar á vegum Reykjavíkurborgar, Landsbankans og Icelandair. Forseti Íslands setur ráðstefnuna 18. september nk.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka