Brugðist við tilmælum Neytendasamtakanna

Kaupþing banki
Kaupþing banki

Neytendasamtökin hafa, í kjölfar kvartana frá neytendum, ítrekað gagnrýnt aðferðir Kaupþings við sölu á Vista viðbótarlífeyrissparnaði. Fjölmörg dæmi eru um að ungt fólk hafi gert bindandi samninga í verslunarmiðstöðvum, á vinnustöðum og jafnvel á kaffihúsum, að því er segir á vef Neytendasamtakanna. Í kjölfar tilmæla frá samtökunum hefur Kaupþing bætt uppsagnarákvæði í lífeyrissamninga sína.

„ Fulltrúi Neytendasamtakanna átti fund með forvígismönnum Kaupþings þar sem þessi sölumennska var gagnrýnd. Neytendasamtökin lögðu til að Kaupþing setti í skilmála sína ákvæði um að rétthafi samnings gæti sagt upp samningnum innan 14 daga frá undirritun, enda myndi slíkt ákvæði í mörgum tilvikum koma í veg fyrir ágreining sem tengist samningsgerðinni. Fólk hefur þá einfaldlega ákveðið svigrúm til að hætta við.

Nú hefur Kaupþing fallist á þetta og bætt eftirfarandi við samningsskilmálana: „Undirritun rétthafa á samninginn skuldbindur hann ekki fyrr en fjórtán dögum frá gerð samningsins og er rétthafa heimilt að falla frá samningi innan þess frests.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir málið hafa verið í vinnslu í nokkurn tíma enda þurfi fjármálaeftirlitið að fara vandlega yfir allar breytingar á skilmálum. „Við erum mjög ánægð með þessar málalyktir og teljum að þessi breyting sé gott svar við þeim kvörtunum sem okkur bárust. Málinu hefur verið lokið  farsællega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert