Eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, segir að í ljós hafi komið að deyfilyf sem þarf að nota til þess að svæfa hvítabirni, er ekki til í landinu. Jafnframt er sú tegund riffils sem notaður er við að skjóta deyfilyfinu ekki tiltæk í Skagafirði. Segir Þórunn að ekki megi gleyma því að hvítabirnir geti verið stórhættulegir bæði mönnum og skepnum.
Þórunn sagði í samtali við mbl.is að hún hafi strax haft samband við Umhverfisstofnun, Þorstein Sæmundsson, forstöðumann náttúrufræðistofu norðvesturlands og sýslumanninn í Skagafirði, þegar fréttist af ísbirninum. Þorsteinn fór strax með lögreglu upp á Þverárfjall og var í stöðugu sambandi við ráðherra og sýslumann um hvað skyldi gera.
Engin áætlun til
Segir Þórunn að það verði að segjast eins og er að ekki er til áætlun um hvernig bregðast eigi við þegar ísbjörn gengur á land svo nálægt byggð og nú var. Ekki er heldur til áætlun um hvert flytja ætti dýrið.
Í Noregi gildir það að ísbirnir eru skotnir ef þeir ganga á land og á Svalbarða er reynt að fæla þá aftur út á hafís með hávaða. Ef þeir ganga hins vegar á land á ný eru þeir felldir. Í tilvikinu í Skagafirðinum er ekki um neinn hafís að ræða og var það mat lögreglu þegar björninn fór á hreyfingu og stefndi niður af fjallinu í þokunni þá væri ekki annað til ráða en að fella dýrið, að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra.