„Hefði átt að loka veginum"

Ísbjörninn
Ísbjörninn mbl.is/Kristján Örn

Egill Steingrímsson, héraðsdýralæknir á Blönduósi, er afar ósáttur við hvernig staðið var að málum í Þverárfjallsveg þar sem ísbjörn var felldur. Segir hann ámælisvert að lögregla hafi ekki lokað veginum því fjöldi fólks kom á staðinn. Að sögn Egils hefði verið hægt að koma í veg fyrir drápið.

Egill segist hafa komið á staðinn en þá var búið að fella ísbjörninn. Hann segir það rangt að ekki sé til deyfilyf í landinu, líkt og umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði í samtali við mbl.is. „Ég er meira að segja með deyfilyf í bílnum hjá mér og það er til deyfibyssa hjá dýralækninum á Egilsstöðum. Ef hún hefði verið send með flugi þá hefði byssan verið komin á staðinn eftir klukkustund," segir Egill í samtali við mbl.is.

Egill segir að ekki hafi verið vandasamt að útbúa gildru þar sem hægt hefði verið að lokka dýrið inn í. Þrátt fyrir að hann hafi ekki verið með byssuna með sér þá hefði verið hægt að setja deyfilyfið í æti enda ísbjörninn að öllum líkindum svangur. 

En það sem Egill er ósáttastur við er að ekkert hafi verið gert til þess að loka fyrir umferð þar sem á milli 50-60 manns hafi verið komnir á staðinn að fylgjast með. Segir hann að lögregla hafi ekki haft mikið val þegar svo var komið þegar ísbjörninn kom æðandi niður hlíðina. Það hefði hins vegar verið hægt að henda æti að honum og reyna að lokka hann í gildru eða búr. „Ég er því ósáttur við að ekki var reynt frá byrjun að ná honum lifandi og það hefði átt að loka veginum," segir Egill.

Ísbirnir á Íslandi

Hvítabirnir hafa flækzt til Íslands með hafís og geyma Íslendingasögur og annálar frásagnir þar um. Á 14. og 15. öld voru nokkrir Íslendingar gerðir að riddurum og tóku tveir þeirra hvítabjörninn í skjaldarmerki sitt; Torfi Arason og Björn ríki Þorleifsson. Í heimildum er getið um tæplega 250 hvítabjarnakomur til landsins frá upphafi byggðar, með um 500 dýrum. Mesti ísbjarnavetur, sem sögur fara af, var hafísveturinn 1880-81, þegar 63 dýr gengu á land, en frostaveturinn 1917-18 voru þau 27. Í fornöld voru hvítabirnir stundum tamdir og þóttu konungsgersemi. Þegar Íslendingar hættu að temja hvítabirni til gjafa voru skinnin seld dýrum dómum. Danakonungur tók sér einkarétt til bjarnarfelda og fram undir aldamótin 1900 voru öll bjarndýraskinn, sem til féllu á Íslandi, send landfógeta, sem keypti þau fyrir konung.

Síðasta Íslandsheimsókn hvítabjarnar var 1993, þegar sjómenn sigldu fram á dýr á sundi norður af Horni, hífðu það um borð og hengdu. Það er nú á Náttúrugripasafninu í Bolungarvík og næsta dýr þar á undan var fellt í Fljótum í Skagafirði og er á Náttúrugripasafninu í Varmahlíð. Fleiri dýr eru til uppstoppuð og höfð til sýnis og stöku bjarnarfeldur prýðir íslenzk heimili..

Hvítabjörninn er í sýslumerkjum Húnvatnssýslna.

Hvítabjörninn er friðaður að íslenzkum lögum á landi, hafís og sundi, en fanga má hann lifandi og flytja þangað sem hann gerir ekki usla. Hann er þó réttdræpur, þegar hann ógnar lífi manna og skepna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert