Lögreglan á Sauðárkróki hefur fengið fjórar tilkynningar um að fólk hafi séð ísbjörn við Þverárfjallsveg, milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Lögreglan er að fara á staðinn og kanna hvort þetta er rétt. Þórarinn Leifsson, bóndi á Keldudal í Skagafirði er einn þeirra sem sá ísbjörninn.
„Ég var á leið vestur í Húnavatnssýslu rétt fyrir tíu í morgun, og sé fullvaxinn ísbjörn labba meðfram veginum til austurs, nálægt skagaafleggjaranum, hann var bara að labba í rólegheitunum að njóta góða veðurins," sagði Þórarinn í samtali við mbl.is.
Að sögn Þórarins voru ísjakar á Húnaflóanum í vetur og gæti ísbjörninn því hafa verið hér í einhvern tíma.