Menntaverðlaunin afhent

Frá afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna.
Frá afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna. mbl.is/HAG

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti í kvöld Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Verðlaunin hlutu: Í flokki skóla, Hvolsskóli á Hvolsvelli. Í flokki kennara, Arnheiður Borg. Í flokki ungra kennara, Halldór B. Ívarsson. Í flokki námsefnishöfunda, Pétur Hafþór Jónsson.

Í umsögnum um verðlaunahafa segir:

Arnheiður Borg lauk kennaraprófi árið 1965 og hefur síðan starfað við Langholtsskóla, Breiðholtsskóla, Kópavogsskóla og Flataskóla. Sérkennaraprófi lauk hún árið 1989.Arnheiður hefur verið almennur bekkjarkennari, bæði á yngsta og miðstigi; á síðari árum einkum sem sérkennari. Kennarastarfið er henni hugsjón og starfsferill hennar hefur verið sérlega farsæll; einkennst af metnaði og áhuga. Smitandi áhugi hennar á hverju því verki sem hún tekur að sér hrífur með sér nemendur og samstarfsfólk, skilar árangri sem oftar en ekki fer langt fram úr væntingum.  Arnheiður leggur áherslu á að kennarinn hafi hlutverk sem bæði fræðari og uppalandi; að búa börn undir lífið, kenna þeim heilbrigð samskipti og fræða þau um muninn á réttu og röngu; styrkja þannig sjálfsmynd þeirra og félagsþroska. Hún var brautryðjandi í lífsleiknikennslu og samdi með öðrum kennurum námsefni sem nefndist „Átak að bættum samskiptum“ löngu áður en lífsleikni var skilgreind sem sérstök námsgrein. Síðar samdi hún og gaf út bækur þar sem lífsleiknin og lífsgildin eru sett fram í búningi ævintýra og sagna.Sem sérkennari hefur Arnheiður lagt sig sérstaklega eftir lestrarkennslu og samið kennsluforrit fyrir byrjendur í lestri sem sameinar kennslu í lestri og tölvunotkun. Einnig hefur hún samið léttlestrarefni, vinnubækur og verkefni til að efla mál- og hljóðvitund.Arnheiður er eldhugi varðandi kennslu og jákvætt og uppbyggjandi skólastarf. Hún lætur engar nýjungar fram hjá sér fara. Þegar hún finnur ekki efni sem henni líkar skapar hún það sjálf og fær samstarfsmenn sína í lið með sér. 

Arnheiður hefur með áherslu á jákvæða lífssýn og stuðningi við þá sem eiga í erfiðleikum með skólanámið  stuðlað að farsæld nemenda sinna. Hún er einn þeirra kennara sem gera hvern skóla betri. 

Öflugt og farsælt starf hefur verið unnið í Hvolsskóla um langt skeið. Skólahverfið hefur stækkað og allir grunn­skólar Rangárþings eystra hafa verið sameinaðir í Hvolsskóla. Samhliða þeirri vinnu hefur markvisst þróunarstarf einkennt starfsemi skólans þar sem nýtt námsfyrirkomulag hefur verið mótað og námið gert einstaklingsmiðaðra. Almennt er viðhorf foreldra jákvætt til innra starfs skólans og samskipta við kennara. Að sama skapi telja kennarar samstarf við forelda ganga vel fyrir sig. Gagnkvæm virðing í samskiptum sem einkennast af samvinnu og lýðræðis­legri ákvarðanatöku er eitt af gildum Hvolsskóla. Birtist það m.a. í starfs­háttum meðal nemenda og starfsmanna. Auk þess er rík áhersla lögð á að einstaklingurinn sé hafður í brennidepli. Ýmis skref hafa verið stigin til að ná því marki að koma hverju barni til aukins þroska í samræmi við þarfir þess. Þannig hefur hefðbundið bekkjarkerfi vikið fyrir sveigjanlegum námshópum þar sem leitast er við að hver og einn fái þá þjónustu sem honum hæfir. Nemendum er ætlað að tileinka sér sjálfs­aga, sjálfsvirðingu og raunhæft sjálfsmat; litið er á samfélagið allt sem námsvettvang fyrir nemendur. Í þróunarstarfinu hefur kastljósinu verið beint að samvinnu kennara, umsjónarkennaranum, lestrar­stundum á öllum stigum skólans, námsmati, aðgerðum gegn einelti, gagnvirkum lestri, tengslum leik- og grunnskóla og umhverfisverkefninu Skóli á grænni grein. Þá hafa kennarar verið þátt­takendur í þróunar­verkefninu Bright Start sem er kennsluaðferð ásamt kennsluefni fyrir yngri nemendurna. Aðferðin er hönnuð til að víkka hugsunarferli barna með því að þroska hugtakanotkun og þrautalausna­tækni þeirra.Einstaklingsmiðað nám felur í sér viðleitni af hálfu kennara til að bregðast stöðugt við námsþörfum hvers nemanda. Til þess þarf að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum. Skólinn hefur markvisst unnið að þróunarstarfi í þá veru. Markmið hans er að hver nemandi nái hámarks þroska og árangri. Áhersla er lögð á að nýta þekkingu og færni hvers kennara og laða það besta fram hjá hverjum og einum.

Af öllu þessu er ljóst að í Hvolsskóla er farsælt og framsækið starf þar sem uppsprettan er fólgin í mannauði skóla sem sækir stuðning til góðra verka til hins ytra samfélags, leiddur áfram af styrkri forystu stjórnenda skólans.

Pétur Hafþór Jónsson hefur áratuga reynslu af útgáfu á kennsluefni í tónmennt fyrir grunnskóla: kennslubókum, kennsluleiðbeiningum, vinnubókum og hlustunarefni. Hann brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík sem tónmenntakennari árið 1977 og lauk prófi í tónvísindum frá háskólanum í Álaborg árið 1996. Pétur Hafþór hefur verið kennari í Austurbæjarskóla frá 1976, að undanskildum þeim þremur árum sem hann var við framhaldsnám í Álaborg. Hann hefur á starfsferli sínum byggt upp og stjórnað kór skólans sem víða hefur komið fram.Pétur Hafþór hefur um árabil lagt stund á námsefnisgerð um tónlist. Bók hans Hljóðspor, sem gefin var út af Námsgagnastofnun árið 2007 ásamt fylgiefni, þ.e. ítarlegum kennsluleiðbeiningum og hlustunarefni – um 5 klst. á fjórum geisladiskum – er að mati dómnefndar framsækið og nýstárlegt námsefni. Í námsefninu er gerð grein fyrir þróun dægurtónlistar á 20. öld og tengslum hennar við tónlistarmenningu ungs fólks. Þetta er gert á afar aðgengilegan hátt með lýsingum og tónlistardæmum af ýmsu tagi. Dregin er upp mynd af því hve sterkt afl tónlist er í uppeldi barna og unglinga og áhrifamikið til sköpunar og samkenndar í samfélagi nútímans.     Hljóðspor – Kennarabók og hljóðdiskarnir sem fylgja bókinni eru ítarlegt efni. Mikið er lagt upp úr því að nemendur spreyti sig saman á útsetningum, hljóðfæraleik og söng af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á að í tónmennt geti nemendur sett sig í spor annarra, skilið og deilt hugmyndum, tilfinningum og reynslu með öðrum. Það er mat dómnefndar að bókin Hljóðspor ásamt fylgiefni sé mikilvægt framlag til aukinnar fjölbreytni í námsefni til tónmenntarkennslu í grunnskólum og hún verði skólum landsins hvatning til að leggja aukna áherslu á tónmennt. Námsefnið er vandað að allri gerð. Ásamt markvissri fræðslu um tónmenntir getur það stuðlað að aukinni samkennd meðal barna og unglinga í íslensku samfélagi sem verður fjölmenningarlegra með ári hverju.

Halldór B. Ívarsson lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og námi til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri árið 2003. Halldór hefur kennt við Varmárskóla í Mosfellsbæ frá árinu 1999.

Halldór kennir einkum samfélagsgreinar í efstu bekkjum skólans og sinnir einnig félagsstarfi nemenda.Halldór er hugkvæmur kennari. Hann nýtir upplýsingatæknina sérlega vel við kennslu sína og hefur útbúið af kunnáttu og vandvirkni námsvefi þar sem er að finna gagnvirkt efni sem eflir skilning nemenda á viðfangsefnum þeirra. Þessa vefi geta aðrir skólar nýtt sér. Það sýnir að Halldór er fús til að deilda verkum sínum með öðrum og sýna þannig í verki sameiginlega ábyrgð kennara á að efla skólastarf í þágu nemenda.Halldór er metnaðarfullur kennari sem ber ómælda virðingu fyrir nemendum sínum og hvetur þá til dáða. Hann er í senn kröfuharður og sanngjarn og tekur tillit til mismunandi hæfni nemenda og áhugasviða.

Halldór nýtur virðingar og trausts samstarfsmanna, ekki síst fyrir hæfileikann til að setja sig í annarra spor og leita sameiginlegra lausna á viðfangsefnum.

Halldór er verðugur fulltrúi ungra kennara með eljusemi leggur hann alúð við sérhvert verk með hag og velferð nemenda að leiðarljósi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert