„Ég er hneyksluð á því hvernig var tekið á þessu máli," segir Ingiveig Gunnarsdóttir, leiðsögumaður og ráðgjafi sem sérhæfir sig í vistvænni ferðamennsku, og starfar hjá Excellentia ferðamiðlun og ráðgjöf, og vísar hún í hvernig staðið var að málum þegar ísbjörn var felldur við Þverárfjallsveg laust fyrir hádegi í dag.
Að sögn Ingiveigar eru hvítabirnir í mikilli útrýmingarhættu og því veki þessi atburður í morgun óhug hjá henni og segir hún það ekki sæma þjóð sem státar af ósnortinni náttúru og því að standa framarlega í umhverfismálum, að sýna slíka óvirðingu fyrir villtu dýralífi. Umhverfisráðherra verður að gefa skýringar og sæta ábyrgð, segir Ingiveig.
„Hvaða vald getur umhverfisráðherra tekið sér þegar um er að ræða dýrategund sem er í útrýmingarhættu. Það hefði verið hægt að bjarga dýrinu, af hverju var ekki talað við dýralækni, af hverju var þessi ákvörðun tekin án þess að málið væri krufið til mergjar," segir Ingiveig og bætir við að þessi viðbrögð stjórnvalda sýni virðingarleysi fyrir náttúrunni og villtu dýralífi.
Ingiveig segir enga virka stefnumótun um dýravernd á Íslandi og segir ákvarðanatöku íslenskra yfirvalda skaða alþjóðlega ímynd landsins. Dýraverndunarumræða sé mjög heit í alþjóðasamfélaginu um þessar mundir, og sem leiðsögumaður og skipuleggjandi ferða umhverfis- og náttúruverndarsamtaka um Ísland segir hún starfsfólk innan ferðaþjónustu hafa áhyggjur af því hvernig þessi mál koma til með að þróast. „Ef stjórnvöld hefðu tekið ábyrgð á þessu máli og kynnt sér málið áður en dýrinu var útrýmt, hefði það spurst út í alþjóðasamfélagið og verið mjög jákvætt fyrir okkur," segir Ingiveig.
Samtökin The World Conservation Union (IUCN) áætla að um 25.000 hvítabirnir séu eftir í heiminum í dag en bráðnandi ís og hækkandi hitastig jarðar ógnar heimkynnum þeirra.