Áhersla á sjálfbærni í matvælaframleiðslu

Það er enginn matvælaskortur á ráðstefunni í Róm
Það er enginn matvælaskortur á ráðstefunni í Róm Reuters

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, lagði í dag áherslu á sjálfbæri í matvælaframleiðslu, orkuframleiðslu og nýtingu sjávarauðlinda í ávarpi sem hún flutti á leiðtogafundi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um fæðuöryggi í heiminum og áskoranir af völdum loftslagsbreytinga og lífefnaorku, sem fram fer í Róm 3.-5. júní. Auk þess að sitja fundinn mun utanríkisráðherra hitta Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, og yfirmenn alþjóðastofnana í Róm, samkvæmt tilkynningu.
       
Á leiðtogafundinum er fjallað um leiðir til að tryggja hnattrænt fæðuöryggi í ljósi hækkandi matvælaverðs, hækkandi orkuverðs, minnkandi fæðuframleiðslu og áhrifa loftslagsbreytinga og aukinnar framleiðslu á lífefnaeldsneyti á fæðuframleiðsluna. FAO telur brýna þörf á að fjalla um þessar nýju aðstæður og móta nýja stefnu, með það fyrir augum að tryggja góða stjórnun náttúruauðlinda og umhverfismála og tryggja nægjanlega framleiðslu landbúnaðarvöru í heiminum í ljósi fólksfjölgunar.

Í ræðu sinni ræddi utanríkisráðherra neikvæð áhrif hækkunar matmælaverðs, ekki síst á frið og öryggi. Lagði hún áherslu á nauðsyn þess að tryggja aðkomu kvenna að umræðu og ákvarðanatöku um sjálfbæra þróun, um mikilvægi frjálsrar verslunar til að tryggja fæðuöryggi og ábyrgð fyrirtækja. Þá ræddi ráðherra reynslu Íslendinga af landgræðslu og nýtingu orku og sjávarauðlinda.  

Ráðherrafundurinn er haldinn í samvinnu við Matvælaáætlunina (WFP) og Alþjóðasjóð fyrir þróun landbúnaðar (IFAD), en þær hafa einnig höfuðstöðvar sínar í Róm. Mun utanríkisráðherra eiga fundi með yfirmönnum allra þriggja stofnananna: dr. Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóra, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sþ (FAO), Josette Sheeran framkvæmdastjóra WFP og Lennart Baage, forseta IFAD.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert