Ármann Kr. Ólafsson, stjórnarformaður Strætó, mun ekki mæta á fund sem starfsmannafélag Strætó hefur boðað klukkan 16:00 á Hlemmi í dag þar sem til stóð að veita honum áminningu en segist vera reiðubúinn til þess eiga fund með fulltrúum starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þegar eftir því er óskað. Að sögn Ármanns hefur hann átt einn fund með fulltrúum félagsins og er það í eina skiptið sem þeir hafa óskað eftir slíkum fundi.
Ármann sagði í samtali við mbl.is að hann hafi bent fulltrúum starfsmannafélagsins á það í bréfinu að það sé alveg skýrt að starfsmannamál Strætó heyra undir framkvæmdastjóra og þaðan komi þau inn á borð stjórnar.
„Ég vil síðan taka það fram að hvorki þið né starfsmannafélagið hafið
óskað eftir því að fá fundi með mér. Hvað þá ítrekað. Ég bið ykkur því
að draga þá fullyrðingu til baka eða tilgreina hvenær þessar óskir komu
fram," segir Ármann.
Að sögn Ármanns fékk hann svar um hæl frá fulltrúum starfsmannafélagsins þar sem fram kemur að þeir hafi óskað eftir fundi með Ármanni í tvígang án þess að tilgreina það nánar. Segist Ármann ekki undrandi á því að þeir tilgreina ekki hvenær óskað var eftir þessum fundum þar sem það sé ekki satt.