Ekki „bjarga" fuglsungum

Þessa dagana er mikið af fuglsungum að komast á legg í náttúrunni. Unnur Sigurþórsdóttir deildarstjóri hjá Húsdýragarðinum í Reykjavík segir að fólk leggi ýmislegt á sig til að bjarga ungunum sem eiga í vanda og berst fjöldi þeirra í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á hverju sumri.

Unnur segir að helstu ástæður sem fólk gefur fyrir að taka ungana úr náttúrunni eru að þeir verði hugsanlega köttum eða mávum að bráð eða að þeir séu einir og yfirgefnir. 

„Oft eru mæður unganna í burtu til að afla fæðis fyrir þá og geta verið í burtu í lengri tíma," sagði Unnur. Hún bætti því við að vinsælt sé að bjarga bæði andarungum og þrastarungum sem dottið hafa úr hreiðri.

„Stundum á það rétt á sér að koma með unga hingað, í gær kom lögreglan með andarunga en þá hafði verið ekið yfir móður hans," sagði Unnur. „En það getur verið erfitt að koma þeim á legg, við erum ekki endur," sagði hún að lokum.

Starfsfólk Húsdýragarðsins mælir eindregið með því að fólk leyfi fuglsungunum að vera í friði í náttúrunni.  Þar eiga þeir best heima enda eru foreldrar unganna oft ekki langt undan til að sinna afkvæmum sínum þegar friður gefst til.  

Í fyrra tók Húsdýragarðurinn á móti 5 stokkandarungum, 10 skógarþröstum, 6 æðarungum, 6 grágæsaungum 3 starraungum 1 svartþrastaunga og 1 skúfandarunga.  Ekki tókst að koma þeim öllum upp enda erfitt verk og að sögn Unnar vantar einhvern fjölda inn í þessar tölur því þegar mikið er að gera gefst oft ekki tóm að skrá ungana niður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert