Viss hætta er á því að lóga þurfti 40 þúsund býflugum á Seyðisfirði í dag ef ekki tekst að útvega uppruna- og heilbrigðisvottorð vegna innflutnings dýranna til landsins. Flugurnar komu með Norrænu í gær og fékk héraðsdýralæknirinn Hjörtur Magnason upplýsingar um innflutninginn aðeins klukkustund áður en skipið lagðist að bryggju.
Flugurnar eru fluttar inn frá Noregi og eiga að verða notaðar í hunangsframleiðslu hérlendis. Að sögn Hjartar eru flugurnar í sérstökum kössum í ferjunni og ættu þær að þola vist þar í nokkra daga. Þrennt er mögulegt í stöðunni, þ.e. að innflytjandanum takist að útvega umbeðin gögn fyrir kl. 16 en þá lætur Norræna úr höfn eða að honum takist það ekki með þeim afleiðingum að senda þurfi flugurnar til baka – eða lóga þeim á staðnum, segir Hjörtur. Hann segir ákveðin mistök hafa valdið því að vottorðin vantaði og vonast til að málið leysist í dag.
„Ef ekki er hægt að leysa úr vottorðamálunum verða flugurnar sendar til baka eða teknar af lífi hér heima,“ segir Hjörtur.