Grænfriðungar hafa óskað eftir því við stjórnvöld í Japan að heimila ekki innflutning á kjöti af sjö langreyðum sem veiddust árið 2006 við Ísland. Hefur kjötið verið selt til Japans.
Að sögn Junichi Sato, talsmanns Grænfriðunga í Japan, eiga japönsk stjórnvöld nú möguleika á því að sýna og sanna að þeim sé alvara með að horfa til framtíðar ef þau hafna því að kjötið sé flutt inn. Ef ekki þá sendi þau skilaboð til alþjóðasamfélagsins um að afstaða Japans til hvalveiða hafi ekkert breyst.
Fram kemur í tilkynningu frá Grænfriðungum að útgáfa útflutningsleyfisins sé einungis vinargreiði við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals, sem flytur kjötið út. Segir í tilkynningunni að svo virðist sem um tilraun til þess að smygla hvalkjöti til Japans sé að ræða.
„Hvalveiðar og þessi grunsamlegi útflutningur hefur slæm áhrif á Ísland. Aðgerðir sjávarútvegsráðherra og Kristjáns munu ekki styðja baráttu Íslands fyrir sæti í öryggisráði Sameinu þjóðanna, segir Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga.