Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, harma ísbjarnardrápið í Skagafirði í gær og telja að ákvörðunin um að fella dýrið hafi ekki verið sérlega vel ígrunduð.
Af fréttum að dæma og frásögnum sjónarvotta er ósennilegt að slík hætta hafi verið fyrir hendi að ekki mætti bíða útbúnaðar til að fanga ísbjörninn, segir í tilkynningu frá samtökunum. Ísland sé aðili að fjölmörgum alþjóðasamþykktum um dýravernd og líffræðilegan fjölbreytileika og þessar samþykktir leggja okkur skyldur á herðar að drepa ekki dýr í útrýmingarhættu.
Ennfremur segir að ef sú hætta stafi af ísbjörnum, sem látið er af, er það sinnuleysi af stjórnvöldum að ekki skuli vera til aðgerðaáætlun því að ísbirnir koma til landsins öðru hverju. Vonandi verður slík aðgerðaáætlun gerð í kjölfar þessa atburðar og fagna samtökin yfirlýsingu umhverfisráðherra að farið verði rækilega yfir atburðarásina í gær.