Hrygningarstofn þorsks ætti að fara vaxandi

Hafrannsóknastofnun segir að miðað við aflareglu um að þorskafli sé 20% af veiði yrði kvótinn 124 þúsund lestir á næsta fiskveiðiári. Það væri 6000 lesta niðurskurður miðað við núverandi kvóta. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar í fyrra að þorskkvóti verði ekki undir 130.000 tonnum á næsta fiskiveiðiári

Stofnunin segir þó í nýrri skýrslu um ástand nytjastofna, að  ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins um 130 þúsund lesta aflamark á næsta fiskveiðiári muni leiða til lækkunar á fiskveiðidauða miðað við undanfarin ár. Þá segir stofnunin, að fylgt verði reglu um veiði verði ekki yfir 20% af viðmiðunarstofni til lengri tíma  sé ólíklegt að stofninn verði minni en hann er nú og líklegt að hrygningarstofninn vaxi á næstu fjórum árum.  

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði að skýrslan í ár væri í fullu samræmi við skýrslur stofnunarinnar frá síðustu árum. Hann sagði, að lélegir þorskárgangar áránna 2001-2007 að koma inn í viðmiðunarstofninn og yrðu uppistaðan í veiði næstu ára. Þess vegna teldi stofnunin afar mikilvægt að byggja upp hrygningarstofninn og auka nýliðun.

Jóhann lagði áherslu á, að almennt væru fiskveiðar við Ísland með ábyrgum hætti og verið væri að nýta árganga mismunandi stofna vel.  Þá væru stjórnvöld að  taka með mjög ábyrgum hætti á því alvarlega ástandi sem þorskstofninn væri kominn í.

Björn  Ævarr Steinarsson, formaður verkefnisstjórnar um veiðiráðgjöf, sagði að ekki væri gert ráð fyrir að aflamarkið fari vaxandi á næstu árum, m.a. vegna virkni aflareglunnar.  Hann sagði að Hafrannsóknastofnun legði áherslu á að aðlögunartími að 20% aflareglu verði ekki framlengdur, þ.e. að ekki verði áfram sett  130 þúsund lesta kvótagólf.

Fram kemur í skýrslu stofnunarinnar, að heildarafli úr íslenska þorsksstofninum hafi verið 170 þúsund tonn á síðasta ári en var 196 þúsund tonn árið 2006. Hrygningarstofninn er áætlaður 230 þúsund lestir en viðmiðunarstofninn var um 590 þúsund tonn í upphafi ársins.

Stofnunin leggur einnig til að dregið verði úr afla á ýsu úr 100 þúsund tonnum í 83 þúsund tonn. Talið er að 60% af ýsuaflanum á þessu ári komi úr óvenjulega stórum áragangi árið 2003. Árgangarnir sem á eftir komu eru hins vegar í meðallagi og því er lagt til að dregið verði úr veiðunum  en fyrstu mælingar á 2007 árganginum benda  til þess að hann sé þokkalega sterkur.

Þá er lagt til að aflamark á ufsa lækki úr 75 þúsund tonnum í 50 þúsund tonn. Einnig er tillaga um minni afla á gullkarfa, úr 57 þúsund tonnum í 30 þúsund tonn, og á djúpkarfa úr 22 þúsund tonn í 10 þúsund tonn.  Aflamark grálúðu fyrir Ísland minnkar úr 15 í 5 þúsund tonn samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar.  Jóhann sagði, að stjórnvöld á Íslandi, Grænlandi og  í Færeyjum hafi ekki tekið á stjórn grálúðuveiðanna með ábyrgum hætti.

Einnig leggur stofnunin áfram til að bein sókn í lúðu verði bönnuð.

Lagt er til að veiði á humri verði aukin úr 1900 tonnum í 2200 tonn.  Smávægileg aukning verður á  steinbítsafla, úr 11 í 12 þúsund tonn, á skötusel úr 2200 í 2500 tonn, og á íslenskri sumargotssíld úr 130 þúsund í  131 þúsund tonn en staða þess stofns er afar sterk.

Ekki er gert ráð fyrir að loðnuveiðar verði heimilaðar í upphafi vertíðar en mælingar á 2006 árganginum benda til þess að hann sé mjög lítill. Þá bíður ráðgjöf um norsk-íslensku síldina.

Einnig er bráðabirgðaráðgjöf fyrir hrefnu minnkuð úr 400 dýra kvóta í 100 dýr.

Skýrsla um ástand nytjastofna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert