Undarleg vinnubrögð Bílgreinasambandsins

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar og fv formaður Bílgreinasambandsins
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar og fv formaður Bílgreinasambandsins SteinarH

Ágreiningur um skref til að auka fagmennsku innan bílgreinarinnar  voru ein meginástæða þess að Egill Jóhannsson sagði af sér sem formaður Bílgreinasambands Íslands. Hann segir það vandamál meðal margra íslenskra félagssamtaka að ýmsu er lofað á aðalfundi en enginn vilji er til að fylgja því eftir.

Þann 28.maí síðastliðinn sagði Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, af sér sem formaður Bílgreinasambandsins eftir að hafa sinnt formennsku í eitt ár. Ástæða afsagnar er meðal annars ágreiningur milli hans og stjórnar um áherslur á fagmennsku innan sambandsins. Brimborg mun þó áfram vera innan sambandsins.

Nauðsynlegt að auka virðingu stéttar 

Frá því að Egill tók við formennsku í apríl 2007 hafði hann lagt áherslu á bætt vinnubrögð og skrifaði til dæmis grein í Morgunblaðið þar að lútandi. Á aðalfundinum 2008 átti  hann aðalfrumkvæðið að því að fundurinn ályktaði um mikilvægi góðra viðskiptahátta. Mikilvægt væri að auka virðingu stéttarinnar og fagmennsku. Eftir aðalfundinn var gerð framkvæmdaáætlun stjórnar og sneri einn liðurinn að því að hrinda í framkvæmd ályktunum aðalfundar.

Tillaga um siðanefnd 

Á stjórnarfundi Bílgreinasambandsins nýverið bar stjórnarmeðlimur upp þá tillögu að stjórnin skyldi skoða þann möguleika að stofna siðanefnd. Segist Egill hafa tekið vel í það enda studdi sú tillaga fyrri ályktun sambandsins um góða viðskiptahætti. Í framhaldi af því bar hann síðan upp formlega tillögu þess efnis að undirbúa stofnun siðanefndar. Undirbúningi skyldi lokið fyrir 1.október en þá skyldi metið hvort stofnun væri skynsamleg. Ákvörðun stjórnar yrði svo lögð fyrir aðalfund 2009.

Vinnubrögð ekki einkamál hvers fyrirtækis

Að mati Egils væri siðanefnd ákaflega mikilvæg ef það ætti að takast að auka fagmennsku innan stéttarinnar. Það væri hins vegar erfitt að starfa vitandi af siðanefnd sem fylgist með störfum viðkomandi og því hefði hann viljað gefa mönnum nægan tíma til að undirbúa sig undir komu hennar og laga vinnubrögð.

Hlutverk nefndarinn myndi meðal annars vera að fjalla um auglýsingar og almenna viðskiptahætti. „Almennt er fólk faglegt innan greinarinnar en það er nóg að það séu fáir til að fólk missi virðinguna fyrir greininni. Það er heldur ekki einkamál hvers fyrirtækis hvernig menn vinna innan þess. Allir ættu að vinna samkvæmt ákveðnum siðareglum.“

Tillögu um siðanefnd hafnað 

Egill segir það hafa vakið hjá sér mikla furðu að tillögu hans skyldi afdráttarlaust hafnað af stjórninni í heild sinni, þar á meðal af þeim sem upphaflega lagði til að siðanefnd skyldi stofnuð.

„Mér fannst þetta mjög undarlegt. Í málflutningi mínum vísaði ég til tillögu annars stjórnarmanns, ályktun aðalfundar og í 2.grein laga Bílgreinasambandsins en þar segir að tilgangur sambandsins sé að efla og þróa bílgreinina á Íslandi, meðal annars með því að vinna að eflingu faglegra vinnubragða og að viðhafðir séu réttmætir viðskiptahættir innan greinarinnar.“

Veik rök stjórnar

Rök stjórnarinnar fyrir því að vilja ekki stofna siðanefnd, að sögn Egils, voru í meginatriðum tvö. Stjórnin hélt því fram að sambærileg félagssamtök hérlendis hefðu ekki slíkar siðanefndir en það fannst Agli léttvægt, ekkert væri að því að vera fyrstur. Það væri fagmennska að hafa slíka nefnd og vísaði til dæmis í siðanefnd blaðamanna og siðanefnd auglýsingastofa. Önnur rök stjórnar voru þau að samtök með siðanefnd klofnuðu oft í framhaldinu. „En er það ekki vegna þess að einhverjir hafa verið ófaglegir? Tilgangurinn með siðanefnd er að menn séu meðvitaðir um hana og vandi vinnubrögðin,“ segir Egill. 

Vantrauststillaga

Önnur ástæða þess að Egill sagði af sér var vantrauststillaga sem borin var upp á stjórnarfundi af tveimur stjórnarnmeðlimum, Guðmundi Inga varaformanni og Knúti Haukssyni, forstjóra Heklu. Voru þeir og aðrir í stjórn ósáttir við að Egill tók strax til afgreiðslu formlegt kvörtunarbréf sem honum barst sem formanni sambandsins frá Toyota umboðinu vegna auglýsinga Heklu um lækkanir á bílum. 

„Mér fannst það hins vegar mikilvægt að taka málið strax fyrir þar sem kvörtunin barst frá félagsmanni. Sem formaður ber maður ákveðna ábyrgð og ég vildi ekki eiga ábyrgð á því að Toyota segði sig mögullega úr sambandinu.“ Sömuleiðis var stjórnin ósátt við að Egill hafði tjáð sig um málið í fjölmiðlum þar sem hún hafði ákveðið að sambandið skyldi ekki tjá sig um það. „Ég tjáði mig hins vegar alltaf almennt og skýrði aldrei efnislega frá svari sambandsins til Toyota.“

Egill segir að allt of mikið sé um það á Íslandi að á aðalfundum séu sett fram háleit markmið og loforð en í raun sé enginn vilji til að hrinda þeim í framkvæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert