Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að vísa beri máli frá dómi vegna vanhæfis Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns á Selfossi. Ólafur hyggst senda öll gögn málsins til ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út að nýju.
Í málinu var karlmanni gefið að sök að hafa ráðist að öðrum með hótunum um líkamsmeiðingar, auk þess að taka hann föstu kverkataki, á vistheimilinu að Kumbaravogi á Stokkseyri í desember árið 2006. Ákæra var gefin út rúmu ári síðar. Maðurinn byggði kröfu sína um frávísun á því að í febrúar á síðasta ári hefði hann verið dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir að veitast að sýslumanninum á Selfossi þar sem hann var við störf. Þreif maðurinn í öxl Ólafs og brá fyrir hann fæti. Taldi hann að ákæruvaldið hefði ekki rannsakað meint brot af hlutleysi og alla vega mætti draga hlutleysi sýslumannsins í efa.
Þrátt fyrir greinargerð sýslumannsins komst Héraðsdómur Suðurlands að þeirri niðurstöðu að líta mætti svo á að sýslumaðurinn á Selfossi væri „svo við ákærða riðinn“ að draga mætti hlutleysi hans í efa. Hæstiréttur staðfesti svo þá niðurstöðu.
Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.