Um síðustu áramót voru 6.200 nýjar íbúðir í byggingu og höfðu aldrei verið fleiri. Eru þá meðtaldar framkvæmdir þar sem einungis er byrjað að grafa fyrir grunni en auðvelt er að hætta við slíkar framkvæmdir.
Með hliðsjón af fjölda íbúða í byggingu í árslok 2007, og sem byrjað hefur verið á á þessu ári, má ætla að 4.500 íbúðir séu í byggingu í landinu um þessar mundir að því er fram kemur í fréttaskýringu í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Kári Arngrímsson, forstjóri verktakafyrirtækisins Atafls, segir flesta hafa brugðist við breyttum aðstæðum með því að hægja á framkvæmdum. Hann segir að Seðlabankinn kanni nú hvað verktakar hafi byggt og selt í fyrra og í ár og hversu margar íbúðir séu leigðar út.
„Það hafa verið gefnar út yfirlýsingar um stöðuna á fasteignamarkaðnum án þess að vita í rauninni hver staðan sé. Það er svolítið alvarlegt að vera með vangaveltur um fasteignamarkaðinn án þess að hafa skýr gögn um ástandið,“ segir Kári.